Söngur

Smári Ólason

Söngur Passíusálmanna

Þegar Hallgrímur Pétursson mótaði með sér það form sem hann ætlaði að hafa á hverjum Passíusálmi hugsaði hann til þekkts sálmalags úr sálmabók eða messusöngbók hinnar evangelísk-lútersku íslensku kirkju, en fyrstu útgáfur þeirra bóka voru Hólabók (1589) og Graduale eðaGrallari (1594). Uppruni þessara laga var að stærstum hluta þýsk sálmalög siðbreytingarinnar en búið var að umsnúa og þýða texta þeirra á íslensku. Upphafserindi hvers sálms í þessum bókum varð að því sem nefnt hefur verið lagboði, þ.e. kennimark hrynháttar og laglínu.  Gefur Hallgrímur upp alls 38 mismunandi tilvísanir um hvað eigi að syngja við Passíusálmana og þar af 36 lagboða sem flesta má rekja til þekktra sálmalaga.

Í íslenska bændasamfélaginu voru kvöldvökur hefðbundinn þáttur daglegs lífs; í rökkrinu á meðan heimilisfólk fékkst við ýmsa handavinnu voru gjarnan kveðnar rímur og lesnar sögur. Að lokinni kvöldvöku var lesinn húslestur, en hann fór þannig fram að fyrst var sunginn sálmur, þá var lesið guðsorð og síðan sunginn seinni hluti sálmsins eða nýr sálmur. Um föstuna voru Passíusálmarnir sungnir, lengst af eftir tilvísun Hallgríms í lagboðana. Þessar laggerðir urðu hins vegar framandi í heimi dansk-þýskrar sálmahefðar sem barst til landsins á 19. öld og festist í sessi með tilkomu orgela og harmóníum hljóðfæra um og eftir miðja öldina. Þau lög sem sungin höfðu verið við sálmana ­ ,,gömlu lögin“ eins og þau voru kölluð eftir að ný sönghefð barst til landsins – varðveittust þó langt fram á þessa öld í minni þeirra sem ólust upp við Passíusálmasöng í æsku. Breyting laganna í tóntegundum virðist vera nokkuð lík um allt landið en hver og einn hafði sín sérkenni í skrauti laglínanna við flutning þeirra þannig að til urðu mjög mörg afbrigði þessara laga.

Undir lok 19. aldar fóru menn að reyna að skrifa lögin niður eins og þau voru sungin og má þar nefna þá bræður Kristin og Sigtrygg Guðlaugssyni, Benedikt Jónsson frá Auðnum og Bjarna Þorsteinsson, sem skráði á árunum 1906-1909 sérstakt lag við hvern Passíusálm og birti í riti sínuÍslenzk þjóðlög. Elstu hljóðritanir sem til eru á söng Passíusálma gerði Jón Pálsson bankagjaldkeri á vaxhólka á árunum 1903-1912. Það var þó ekki fyrr en á árunum 1960-1975 að farið var skipulega um landið á vegum Ríkisútvarpsins og Árnastofnunar og hljóðritað mikið af þjóðfræðilegu efni auk þess sem einstaklingar hljóðrituðu á eigin vegum. Að stærstum hluta er hér um að ræða frásagnir og upplýsingar um forna þjóðhætti en einnig var hljóðritaður rímnasöngur og sálmasöngur. Þessar upptökur leiddu í ljós að ,,gömlu lögin“ við Passíusálmana höfðu lifað lengst af fornri hefð íslensks sálmasöngs og enn mátti finna fólk sem kunni lögin, einkum einstaklinga fædda fyrir síðustu aldamót. Kunnátta þessa fólks var reyndar mjög mismunandi, allt frá því að kunna flesta sálmana til þess að muna einn sálm. Þeir sem mest hafa hljóðritað af Passíusálmasöng eru hjónin Helga Jóhannsdóttir og Jón Samsonarson á vegum Ríkisútvarps og Árnastofnunar, Hallfreður Örn Eiríksson sérfræðingur á Árnastofnun, Þórður Tómasson safnvörður í Skógum og Njáll Sigurðsson námstjóri.

Þær upplýsingar um söng Passíusálmanna sem hér er að finna byggjast á rannsóknum mínum á lagboðum þeirra. Þar hef ég annars vegar stuðst við óútgefið rit Jóns Ólafs Sigurðssonar um uppruna sálmalaga og hins vegar hlustað á og skrifað niður nótur laganna eftir söng rúmlega 80 einstaklinga á um 500 upptökum. Í sumum tilvikum hef ég aðgang að mörgum útgáfum sama lags en í öðrum tilvikum eru útgáfurnar mjög fáar. Oft reynist erfitt að velja milli laggerða, en ég hef leitast við að velja þær sem líkjast mest upprunalegri gerð lagboðanna, þ.e. þær sem ekki hafa fjarlægst mjög uppruna sinn. Rannsókn minni er ekki lokið en vonandi verður seinna hægt að gefa enn heildstæðari mynd af þessum einstæða þjóðararfi Íslendinga sem nú er nánast alveg glataður.