Um Lagboðana

Um lagboðana 
(lagboðum er hér raðað í stafrófsröð)

Af djúpri hryggð (ákalla ég þig). (41. sálmur).

Til eru tvær laggerðir við þennan lagboða en sú laggerð sem við á byggist á latneskum hymna, „De profundis“. Í Hólabók 1589 er sálmurinn „Af djúpri hryggð ákalla ég þig“ án nótna en í Hólabók 1619 er hann með þessu lagi. Í 1. útgáfu Grallara 1594 er þessi sálmur með öðru lagi en í 2. útgáfunni 1607 er laggerðin af „De profundis“ komin við hann, en lyklarnir stemma ekki.

Í efnisskrá Sálmasöngsbókar 1936 er við 41. Passíusálm vísað á þennan lagboða nr. 2. Nr. 2a er lag sem byggist á lagboðanum „Aus tiefer Not rufe ich zu dir“ en nr. 2b er latneski hymninn, „De profundis“. Í umfjöllun um 34. Passíusálm kemur fram að í efnisskrá Sálmasöngsbókar1936 er einnig vísað til lagboða nr. 2 við þann sálm. Engin erindi eru úr 41. Passíusálmi í Sálmabók 1972.

Sama lag var yfirleitt sungið við 24. Passíusálm og við þann 41. þótt þeir hafi hvor sinn lagboðann. Laggerð þeirra Skarphéðins Gíslasonar og Valgerðar Gísladóttur er líkari lagboðanum „De profundis“ en þeim sem gefinn er upp við 24. Passíusálm. Tóntegundin er mjög sérstök, en hún er lókritísk, eða sammarka dúrtóntegund frá 7. skalatóni. Ekki er hægt að sjá líkindi með laggerð Bjarna Þorsteinssonar í bók hans Íslenzk þjóðlög (s. 757). Sú laggerð sveiflast milli dúrtóntegundar og sammarka frygískrar tóntegundar.

notur2441

Við niðurskrift nótnanna var stuðst við sama söngdæmi og við 24. Passíusálm, söng Skarphéðins Gíslasonar (f. 1895) á Vagnstöðum í Suðursveit og systur hans Valgerðar Gísladóttur (f. 1898). Upptökuna gerði Hallfreður Örn Eiríksson 1967. Tóntegund: Lókritísk.

 

Af hjarta, hug og munni. (16. sálmur).

Ekki hefur tekist að finna hvaða sálmur það er sem þessi tilvísun Hallgríms á við um þar sem enginn sálmur með þessu heiti finnst í sálmabókum eða Gröllurum. Aðrir lagboðar við Passíusálma sem eru með sömu hrynmynd, 8 = 7 6 7 6 6 7 7 6, eru „Gæsku Guðs vér prísum“ og „Konung Davíð sem kenndi“.

Í efnisskrá Sálmasöngsbókar 1936 er við 16. Passíusálm vísað á lag nr. 109 með lagboðanum „Konung Davíð sem kenndi“, en það er allt annað lag en það sem bar þennan lagboða í Hólabókum og Gröllurum og sem Hallgrímur vísar á við 25. og 33. Passíusálm. Þetta lag er mjög breytt gerð af þýska laginu „Aus meinem Herzen Grunde“ og er mikið sungið í íslensku kirkjunni nú á dögum. Í Sálmabók 1972 er í sálmi nr. 313 (13., 14. og 15. vers 16. Passíusálms) vísað í þennan lagboða. Í Sálmabók 1997 er við þennan sálm skráð útjöfnuð gerð af laginu sem upprunalega bar lagboðann „Konung Davíð sem kenndi“ (lagboði 25. og 33. Passíusálms, sjá nánar í umfjöllun um þann lagboða).

Þær laggerðir þjóðlaganna sem ég hef undir höndum og sungnar voru við þennan sálm eru greinileg afbrigði af lagboðanum „Gæsku Guðs vér prísum“ (lagboði 7. Passíusálms, sjá nánar í umfjöllun um þann lagboða). Í Íslenzk þjóðlög (s. 738) gefur Bjarni Þorsteinsson upp við 16. Passíusálm lagboðann „Konung Davíð sem kenndi“. Laggerð hans er greinilega komin af þeim lagboða.

16notur

Við niðurskrift nótnanna var stuðst við söng Sólrúnar Helgu Guðjónsdóttur (f. 1899) í Króksfjarðarnesi. Upptökuna gerði Helga Jóhannsdóttir 1970. Tóntegund: Hypólydísk.

 

Allfagurt ljós (oss birtist brátt). (14. og 43. sálmur).

Lagið sem Hallgrímur virðist vísa hér til er latneskur hymni; „Aurora lucis rutilat“. Í Hólabókum 1589 og 1619 er sálmtextinn „Allfagurt ljós oss birtist brátt“ við það lag. Í Gröllurum 1594 og 1607 er þessi sálmtexti hins vegar ekki með nótum en gefið er upp við hann sem lagboði allt annað lag: „Halt oss Guð við þitt hreina orð“. Lagið „Aurora lucis“ er prentað við annan sálmtexta, „Fagnaðarkenning kvinnu fær“ í 2. til 5. útgáfu Grallarans. Í 6. útgáfu hans 1690 hverfa nóturnar en eftir það er lagboðinn við þennan sálm gefinn upp sem „Allfagurt ljós oss birtist brátt“. Þannig virðist þetta lag hafa verið með þessu textakennimarki eins og í Hólabókunum þó svo að í Gröllurunum sé annar lagboði gefinn upp við þennan sálm. Lagið „Aurora lucis“ er í G-mixólydískri tóntegund. Í Hólabókunum er það skrifað með sléttum „qadrat“-nótum, nótnaskrift latneska messusöngsins, en oftast eru hymnarnir skrifaði í „hófnaglaskrift“, þ.e. skriftækni „mesnúral“-skriftarinnar sem sýnir lengdargildi nótnanna.

Í efnisskrá Sálmasöngsbókar 1936 er við 14. og 43. Passíusálm vísað á lagboða nr. 127 „Minst þú, ó maður, á minn deyð“ sem, eins og sjá má í umfjöllun um 1. sálm, varð að lagboðatilvísun við þann sálm. Í Sálmabók 1972 er í sálmum nr. 475 úr 14. Passíusálmi (6. og 7. vers) og nr. 133 úr 43. Passíusálmi (9., 10., 15., 16. og 17. vers) vísað til „Minnst þú, ó, maður, á minn deyð“, þar að auki stendur tilvísunin „Með sínu lagi“ við sálm nr. 475, en mér er ekki ljóst hvað átt er við með því. Í Sálmabók 1997 er við þessa sálma skráð lagið „Skapari stjarna herra hreinn“ í sléttum tíglanótum sem hymmnalag frá 15. öld en í Hólabók er það lag til skráð í „hófnaglaskrift“ í rytmískum hrynhætti. Sjá nánar umfjöllun um þann lagboða í 27. og 40. Passíusálmi.

Lagið sem þau systkin Skarphéðinn og Valgerður syngja við 14. og 43. Passíusálm og reyndar einnig við 1. Passíusálm er greinilega afsprengi af gamla latneska hymnanum „Aurora lucis“. Tóntegund þess er breytt og er greinilega frygísk þó svo að frávik frá hefðbundinni uppbyggingu meirihluta fornra sálmalaga séu þau, að endatónn lagsins er 5. skalatónn en ekki grunntónn (breyting frá frumgerð). Í Íslenzk þjóðlög (s. 737) segir Bjarni Þorsteinsson um 14. Passíusálm að samkvæmt gamla fólkinu hafi þessi sálmur sjaldan eða aldrei haft sérstakt lag, „heldur sama lag og við 1. sálminn (eða við 4. sálminn eða við 27. sálminn)“. Í umfjöllun um 43. Passíusálm (s. 758) vísar hann á sama lag og við 1. Passíusálm.

14notur

Við niðurskrift nótnanna var stuðst við söng Skarphéðins Gíslasonar (f. 1895) á Vagnstöðum í Suðursveit og systur hans Valgerðar Gísladóttur (f. 1898). Upptökuna gerði Hallfreður Örn Eiríksson 1967. Tóntegund: Frygísk með 5. skalatón sem endatón.

 

Allt mitt ráð til Guðs (ég set). (10. sálmur).

Þessi sálmur er ekki í Gröllurunum en er án nótna í Hólabókum 1589 og 1619 með lagboðanum „Guðs son kallar: komið til mín“ sem er frá þýska laginu „„Kommt her zu mir“ sprucht Gottes Sohn“. Það gerðist oft að lagboðar fengu ný nöfn eftir þeim sálmum sem mest voru sungnir við þá. Leiða má getum að því að þess vegna hafi Hallgrímur vísað til lagsins fyrir 10. Passíusálm með upphafsorðum sálmsins „Allt mitt ráð til Guðs“, eins og hann kallar hann, þó að réttur lagboði samkvæmt fyrstu heimildum sé „Guðs son kallar: komið til mín“.

Í Sálmasöngsbók 1936 er í efnisskrá fyrir 10. Passíusálm vísað á lagboða nr. 48; „Guðs son kallar: komið til mín“. Í Sálmabók 1972 eru sálmvers úr 10. Passíusálmi í sálmum nr. 114 (4. vers) og nr. 266 (7., 11., 12., 13. og 14. vers) þar sem vísað er til þess lagboða. Í Sálmabók 1997 er lagið með þeim hætti við þessa sálma.

Sú laggerð sem systkinin Skarphéðinn og Valgerður syngja er greinilega skyld lagboðanum „Guðs son kallar: komið til mín“ og gera má ráð fyrir að það lag hafi ávallt fylgt þessum Passíusálmi. Lag Bjarna Þorsteinssonar  í Íslenzk þjóðlög (s. 733) er mjög líkt því söngdæmi sem ég valdi.

10notur

Við niðurskrift nótnanna var stuðst við söng Skarphéðins Gíslasonar (f. 1895) á Vagnstöðum í Suðursveit og systur hans Valgerðar Gísladóttur (f. 1898). Upptökuna gerði Hallfreður Örn Eiríksson 1967. Tóntegund: Lydísk.

 

Dagur í austri öllum. (11. sálmur).

Þessi lagboði er frá hollenska laginu „O, Herr, v wil ick prijsen“ frá 1540 sem upprunalega er lag við 29. Davíðssálm. Þetta lag hefur borist tilÍslands í gegnum Thommiss¢ns Psalmbok. Þessi lagboði er ekki í Grallara 1594 en er í Hólabók 1589. Þar er lagið í rytmískum hrynhætti í g-dórískri tóntegund. Í 2. útgáfu Grallarans er lagið eins skráð nema að á fyrsta nótnastreng hafa c-lykillinn og formerkið b færst til. Í Hólabók 1619 er allt lagið ranglega skráð á þennan hátt og hélst sú villa í gegnum allar útgáfur Grallarans eftir það nema í 4. og 5. útgáfu þar sem það var ekki með. Lagið er því þannig skráð í B-lydískri tóntegund.

Undir lagboðanum „Allt eins og blómstrið eina“ (upphafserindi sálmsins „Um dauðans óvissan tíma“ sem er aftan við Passíusálmana í eiginhandriti Hallgríms Péturssonar), skráði Pétur Guðjónsson þetta lag í sléttum tvískiptum hrynhætti og án skrautnótna í lydískri tóntegund í handriti sínu að „Choralbog for Island“ sem dansk-þýska tónskáldið C. F. Weyse hljómsetti árið 1840. Weyse breytti laginu í dúr nema þar sem lydíska ferundin gat verið leiðsögutónn í tóntegund forhljóms.

Á þann hátt var lagið skráð í öllum bókum fram til Sálmasöngsbókar1936 að þeir Páll Ísólfsson og/eða Sigfús Einarsson breyttu hrynmynd þess til að það passaði betur inn í fjórskipta takttegund (lengingar á nótnagildum í 1./3., 5. og 7. hendingu og þagnargildi eru felld út). Lagið er hér nr. 5a. Í efnisskrá er vísað á það lag fyrir 11. Passíusálm. Í Sálmabók 1972 er í sálmi nr. 131 (3. vers 11. Passíusálms) vísað til þessa lagboða. Í Sálmabók 1997 er lagið við þennan sálm laggerð Róberts Abrahams Ottósonar sem hann birti í bók sinni 22 helgisöngvar árið 1967 en lækkað um heiltón í f-dóríska tóntegund. Sú laggerð er byggð á frumgerð lagsins í Hólabók 1589. Hér er prentvilla; upphafsnóta 5. hendingar á að vera f en er g. Í hljómsetningu Róberts er lokatónn 7. hendingar hækkaður sem leiðsögutónn og getur hann þess í athugasemdum við þetta lag. Þar sem þetta lag er birt samkvæmt frumheilmild (þ.e. vísað til uppruna) er ekki rétt að prenta þessa breytingu Róberts athugasemdalaust. Hér hefði átt að setja afturköllunarmerkið fyrir ofan nótuna es eða að setja sviga utan um það.

Laggerð þeirra systkina Skarphéðins og Valgerðar er ekki mjög skreytt, sem jafnvel má rekja til áhrifa frá því að þetta lag hefur verið sungið mjög mikið í þeirri gerð sem það er í Sálmasöngsbók 1936. Hrynháttur lagsins er þó réttur og lydíska tóntegundin er trygg hjá þeim. Lag Bjarna Þorsteinssonar í Íslenzk þjóðlög (bls. 734) er mjög líkt en töluvert öðru vísi skreytt.

11notur

Við niðurskrift nótnanna var stuðst við söng Skarphéðins Gíslasonar (f. 1895) á Vagnstöðum í Suðursveit og systur hans Valgerðar Gísladóttur (f. 1898). Upptökuna gerði Hallfreður Örn Eiríksson 1967. Tóntegund: Lydísk.

 

Ef Guð er oss ei sjálfur hjá (37. sálmur).

Þetta lag er komið af þýska lagboðanum „Wo Gott der Herr nicht bei uns hölt“. Það er ekki í Gröllurum en í Hólabókum 1589 og 1619 við sálminn „Ef Guð er oss ei sjálfur hjá“.

Í efnisskrá Sálmasöngsbókar 1936 er við 37. Passíusálm vísað á nr. 57 sem er lagboðinn „Heimili vort og húsin með“. Það lag er upprunalega veraldlegt lag frá 15. öld en birtist sem andlegt lag 1529. Það er þekkt undir mörgum lagboðum, þar á meðal „Es ist gewisslich an der Zeit“. ÍSálmabók 1972 er í sálmi nr. 386 (37. Passíusálmur erindi 10, 12 og 14) vísað á lagboðann „Hver, sem að reisir hæga bygð“ sem er nr. 77 í Sálmasöngsbók 1936. Það lag er merkt þar sem „Íslenzkt lag“, en uppruni þess er óviss. Það birtist fyrst á prenti í handritinu Hymnodia Sacraárið 1742, en Pétur Guðjónsson breytti því í uppskrift sinni fyrir Weyse handritið 1840. Í Sálmabók 1997 er við sálm nr. 386 prentað lagið „Hver, sem að reisir hæga bygð“ skv. nr. 77 í Sálmasöngsbók 1936, eins og tilvísun Sálmabókar 1936 segir til um.

Laggerð Sólrúnar Helgu Guðjónsdóttur er greinilega komin af lagboðanum „Hver, sem að reisir hæga bygð“ og mér virðist að að laggerðir sem byggðar eru á þeim lagboða hafi yfirleitt verið sungnar við Passíusálma nr. 34 og 37, en ég hef ekki undir höndum nein söngdæmi sem líkjast upprunalegum lagboða þessara sálma. Laggerð Bjarna Þorsteinssonar í bókinni Íslenzk þjóðlög við 37. Passíusálm (s. 754-55) í frygískri tóntegund er mjög sérkennileg og ég get ekki séð hvaða frumgerð af lagi hún er skyld.

 

notur3437

Við niðurskrift nótnanna var stuðst við sama lag og við 34. Passíusálm, söng Sólrúnar Helgu Guðjónsdóttur (f. 1899). Upptökuna gerði Helga Jóhannsdóttir 1970. Tóntegund: Lydísk.

 

Einn Guð skapari allra sá. (4. sálmur)

Þessi sálmur er án nótna í öllum eldri sálmabókum og við hann gefinn upp lagboðinn: „Drottinn á þér er öll mín von“. Hann er prentaður með þeim nótum í öllum Gröllurum frá og með 2. útgáfu. Uppruni hans er latneskur hymni, t.d. við textann „Deus creator omnium“.

Í Sálmasöngsbók 1936 er í Passíusálmaskrá vísað á lagboða nr. 98a: „Jesú, þín minning mjög sæt er“. Í Sálmabók 1972 er í sálmi nr. 325 vísað í lagboða nr. 197 í Sálmasöngsbók: „Kom, skapari, heilagi andi“. Í Sálmabók 1997 er við erindi úr þessum Passíusálmi tekið upp lag sem fyrst kom fram hjá Jónasi Jónssyni hér á landi við þennan Passíusálm í bók hans Hallgrímur Pétursson, Passíusálmarnir með 4 röddum fyrir orgel og harmóníum (Reykjavík 1906-07). Þetta er þýskt lag með lagboðanum „Herr Jesu Christ, meins Lebens Licht“, sem fyrst birtist í Leipzig 1625. Jónas segir að lag þetta geti „vel átt við“.

Ég hef ekki fundið neitt afbrigði af lagi sem ég gæti rakið til þess lagboða sem Hallgrímur gefur upp eða þeirra lagboða sem að öðru leyti er vísað til. Algengt var að syngja sama lag við þennan sálm og við 27. og 40. sálm, en það er afbrigði af lagboðanum „Skapari stjarna, Herra hreinn“. Lag í bók Bjarna Þorsteinssonar, Íslenzk þjóðlög (s. 728), líkist því töluvert en Bjarni telur samt að það sé annað lag.

3notur

 

Við niðurskrift nótnanna var stuðst við söng Steinunnar Guðmundsdóttur (f. 1888). Upptökuna gerði Hallfreður Örn Eiríksson 1964. Tóntegund: Dúr.

 

Einn herra, ég best ætti. (6. sálmur, 39. sálmur)

Í fororði fyrir þessum sálmi stendur í Hólabók 1589: „„Ég vil eina jómfrú lofa“ – Ein gömul vísa / snúin og umbreytt / Jesú Guðs syni til lofs“.“ Lagið er tekið upp eftir dönsku sálmabókinni. Nokkrar kenningar eru um uppruna þess: Hugsanlega er það samsteypa úr tveimur lögum, en danski tónvísindamaðurinn Glahn kemst að þeirri niðurstöðu að það sé breytileg gerð af dönskum sálmi sem á rætur að rekja til þýsks alþýðulags.

Pétur Guðjónsson fellir þetta lag burt úr bók sinni 1861 þar sem hann telur það ónothæft og tekur í staðinn lag eftir tónskáldið Zinck. Í athugasemd segir hann: „Þetta lag er eptir professor Zinck, og má gjöra ráð fyrir að hins gamla ekki verði saknað, þar sem þetta kemur í staðinn“ (s. 147). Í Sálmasöngsbók 1936 er lag Zincks undir þessum lagboða nr.15a en nr.15b er nýtt lag á Íslandi sem tekið er úr Souter Liederkreis. Í Sálmabók 1936 koma ekki fyrir erindi úr 6. Passíusálmi þó svo að 12. og 13. erindi hafi verið mikið sungin og ættu fullt erindi þar inn, en tvö erindi eru úr 39. Passíusálmi nr. 328 þar sem vísað er til lagboðans í Sálmasöngsbókinni. Í Sálmabók 1997 er þessi sálmur skráður undir rytmískri gerð af laginu sem í útjafnaðri gerð er nr. 80a í Sálmasöngsbók 1936 undir lagboðanum „Hversu mig leysast langar“.

Ég hef undir höndum allmargar mjög góðar laggerðir sem byggjast á gamla lagboðanum og það má með sanni segja að það sé töluverð eftirsjá að honum. Lag í bók Bjarna Þorsteinssonar, Íslenzk þjóðlög (s. 730), er mjög líkt því söngdæmi sem ég valdi

5notur

 

Við niðurskrift nótnanna var stuðst við söng Sigríðar Árnadóttur (f. 1867). Upptöku gerði Þórður Tómasson 1955 eða 1956. Tóntegund. Lydísk.

Eins og sitt barn faðir (ástgjarn). (29. og 42. sálmur).

Þetta lag er komið af þýska lagboðanum „Ich weiß mir ein Röslein hübsch und fein“ frá 1589 sem er í g-dórískri tóntegund. Það er ekki Gröllurum og Hólabók 1589 en er í Hólabók 1619 í g-mixólydískri tóntegund, þ.e. það vantar formerkið b.

Í efnisskrá Sálmasöngsbókar 1936 er við 29. og 42. Passíusálm vísað á lagboðann „Guðs góði son, mín gleði og von!“ sem er nr. 47. Það er komið af lagboðanum „Geboren ist uns ein Kindelein“ frá 1605 og kemur nýtt inn á Íslandi í þessari bók. Engin erindi eru úr 29. og 42. Passíusálmi í Sálmabók 1972. Laggerð Sólrúnar Helgu Guðjónsdóttur er mjög skyld frumgerð lagsins en verulega skreytt.

notur2942

Við niðurskrift nótnanna var stuðst við söng Sólrúnar Helgu Guðjónsdóttur (f. 1899).Upptökuna gerði Helga Jóhannsdóttir 1970. Tóntegund: Dúr.

Faðir á himna hæð. (17. sálmur).

Þetta lag er frá þýska laginu „Vater im höchsten Thron“ frá 1531. Það er prentað í Hólabókum 1589 og 1619 en kemur ekki fyrir í Grallara fyrr en í 11. útgáfu. Lagið er ekki nákvæmlega eins í Hólabókunum.

Í Sálmasöngsbók 1936 er í efnisskrá fyrir 17. Passíusálm vísað á þennan lagboða nr. 25. Í Sálmabók 1972 er í sálmi nr. 279 með versum úr 17. Passíusálmi (17., 21., 22., 23., 24. og 27. vers) vísað til þessa lagboða í Sálmasöngsbók 1936. Í Sálmabók 1997 er sama lag og íSálmasöngsbók 1936.

Laggerð Benedikts Sigurðssonar er eina þjóðlagið sem ég hef undir höndum við þennan sálm. Það er mjög skylt frumgerðinni en þó eru nokkur frávik í henni. Lag Bjarna Þorsteinssonar  í bókinni Íslenzk þjóðlög (s. 740) líkist frumgerðinni en hefur þó undarleg frávik.

17notur

Við niðurskrift nótnanna var stuðst við söng Benedikts Sigurðssonar (fæðingarár ekki þekkt) frá Flatey á Mýrum, A-Skaftafellssýslu. Upptaka: Ríkisútvarpið um 1947. Tóntegund: Lydísk.

Faðir vor, sem á himnum ert. (2. sálmur,  3. sálmur, 22. sálmur, 45. sálmur)

Lagboðinn „Faðir vor, sem á himnum ert“ er sá sami og þýska lagið „Vater unser im Himmelreich“. Hann birtist fyrst með nótum í Hólabók 1619. Þessi lagboði á við um alls fjóra Passíusálma en í átta öðrum tilfellum á sami lagboðinn við um tvo Passíusálma. Þetta er líka eini lagboðinn sem hefur sex hendingar þar sem hver hending hefur átta atkvæði. Þessi lagboði hefur því nokkra sérstöðu.

Í Sálmabók 1977 er skráð eldri gerð þessa lagboða (rytmísk) við erindi úr þeim Passíusálmum sem þessi lagboði á við um, t.d. nr. 277. Í Sálmabók 1972 er gefinn upp lagboðinn „Faðir vor, sem á himnum ert“ en hann er í Sálmasöngsbók 1936 nr. 26a.

2notur

 

Við niðurskrift nótnanna var stuðst við söng Höllu Loftsdóttur (f. 1886) frá Kollabæ í Landeyjum. Upptökuna gerði Hallfreður Örn Eiríksson 1969. Lagið er mjög nærri uppruna sínum en þó mikið skreytt. Í bók sinni Íslenzk þjóðlög (s. 727) skráir Bjarni Þorsteinsson lag sem er nokkuð líkt þessari gerð. Tóntegund: Lydísk.

 

Gæsku Guðs vér prísum. (7. sálmur).

Þessi lagboði er frá þýska laginu „Von Gott will ich nicht lassen“. Hann er í Hólabók 1589 skráður í g-dórískri tóntegund með G-lykli á miðstreng og með formerkið b á 4. línu. Hann er ekki í 1. útgáfu Grallarans en hann er í 2. útgáfu 1607. Þar er c-lykill kominn á 4. línu og formerkið b komið á 3. bil, en laglínan á sama stað og í Hólabók 1589. Þannig er lagið ranglega skrifað niður í frygískri tóntegund í 2. útgáfu Grallarans, í Hólabók 1619 og öllum Gröllurum eftir það. Um miðja 18. öld breyttist nafnið á þessum lagboða og hét hann eftir það „Guðs vors nú gæsku prísum“.

Í Sálmasöngsbók 1936 er í efnisskrá fyrir 7. Passíusálm vísað á þann lagboða nr. 50. Sú laggerð er mjög lík þeirri sem er í Hólabók 1589 undir gamla lagboðanum en þó ekki alveg eins. Í Sálmabók 1972 er í sálmi nr. 296 með versum úr 7. Passíusálmi (2. og 3. vers) vísað til þessa lagboða. Í Sálmabók 1997 er lagið við þennan sálm samkvæmt lagboðanum „Konung Davíð sem kenndi úr Hólabók 1589, en það er lagboðinn við Passíusálma nr. 25 og 33 (sjá síðar).

Svo virðist sem 7. Passíusálmur hafi oftast verið sunginn með sama lagi og 25. og 33. Passíusálmur, sem hafa lagboðann „Konung Davíð sem kenndi, en hann er einnig í g-dórískri tóntegund. Þessir lagboðar eru nokkuð áþekkir en hafa þó báðir mjög sterk sérkenni. Ég tel að þær laggerðir sem ég hef dæmi um og sungnar eru við þessa þrjá sálma séu frekar afbrigði af lagboðanum „Gæsku Guðs vér prísum. Sú laggerð sem þau systkinin Skarphéðinn og Valgerður syngja er það frábrugðin upprunalegum lagboða að hún orðin að sjálfstæðu lagi. Laggerð Bjarna Þorsteinssonar í Íslenzk þjóðlög (s. 731) líkist þessu lagi töluvert en er þó nær upprunalegum lagboða.

Við niðurskrift nótnanna var stuðst við söng Skarphéðins Gíslasonar (f. 1895) á Vagnstöðum í Suðursveit og systur hans Valgerðar Gísladóttur (f. 1898). Upptökuna gerði Hallfreður Örn Eiríksson 1967. Tóntegund: Lydísk.

 

Heiðrum vér Guð af huga (og sál). (5. sálmur)

Þessi lagboði er skráður í d-dórískri tóntegund í Hólabók 1589 en nokkrar leiðréttingar eru á 2. og 3. hendingu hans í Hólabók 1619. Hann kemur ekki fyrir í Grallara fyrr en í 11. útgáfu.

Í Sálmasöngsbók 1936 er við 5. Passíusálm vísað í þennan lagboða við  nr. 55, svo og í Sálmabók 1972 við nr. 474. Þar er lagið töluvert frábrugðið því sem birt er í Hólabók 1619. Í Sálmabók 1997 er lagið skrifað niður næstum því eins og það er í Sálmasöngsbókinni.

Ekki er hægt að sjá í fljótu bragði að þau lög sem sungin voru við þennan sálm séu afbrigði af þeim lögum sem eru í Hólabók eða í Sálmasöngsbók. Mér hefur ekki tekist að staðfæra þann lagboða sem þessi laggerð byggir á. Lag í bók Bjarna Þorsteinssonar, Íslenzk þjóðlög (s. 729), líkist töluvert því söngdæmi sem ég hef valið.

  5notur

Við niðurskrift nótnanna var stuðst við söng Guðríðar Jónsdóttur (f. 1886). Upptökur gerðu Þórður Tómasson 1965 og Helga Jóhannsdóttir 1970. Tóntegund: Lydísk.

 

Herra Guð í himnaríki (44. sálmur).

Þetta lag má telja alþjóðlegt þjóðlag en elsta heimild um það er í handriti frá 1421. Það er undir nafninu „In oostenryck“ í hollensku bókinni Souter lidekens, þýski lagboðinn er „Ach Seele willst du ewgem Leid“. Þetta lag er með sálminum „Herra Guð í himnaríki“ í öllum Gröllurum og íHólabók 1619 en sálmurinn er án nótna í Hólabók 1589.

Í efnisyfirliti í Sálmasöngsbók 1936 er vísað á þennan lagboða nr. 61. Nr. 61a er viðkomandi lag, en hér er það talið vera danskt lag. Það var fyrst þekkt í Danmörku 1528 sem „Gud Fader udi Himmerig“ en það birtist fyrst á prenti 1539. Nr. 61b er lag eftir Þórarin Guðmundsson. ÍSálmabók 1972 er í sálmi nr. 376 (44. Passíusálmur erindi 10, 11, 12, 13 og 14), og sálmi nr. 339 (44. Passíusálmur erindi 17 og 18) og sálmi nr. 373 (44. Passíusálmur erindi 19, 20, 21 og 22) vísað á lagboðann „Herra Guð í himnaríki“. Í Sálmabók 1997 er við sálm nr. 376 prentaður lagboðinn „Þú guð sem stýrir stjarnaher“. Það lag er komið af þýska lagboðanum „Ich weiß mir ein ewiges Himmelsreich“ frá 1643. Það kom nýtt inn á Íslandi sem „danskt þjóðlag“ í Viðbæti 1891. Það er í Sálmasöngsbók 1936 nr. 213. Við sálm nr. 339 er prentað lagið úrSálmasöngsbók 1936 eins og tilvitnunin segir til um.

Laggerð þeirra Skarphéðins Gíslasonar og Valgerðar Gísladóttur er greinilega komin af lagboðanum „Herra Guð í himnaríki“ en það hefur breyst úr dórískri tóntegund í lydíska tóntegund og er töluvert skreytt. Laggerð Bjarna Þorsteinssonar í bókinni Íslenzk þjóðlög er allt önnur, en ég hef ekki getað séð af hvaða lagboða hún er komin.

notur44

Við niðurskrift nótnanna var stuðst við söng Skarphéðins Gíslasonar (f. 1895) á Vagnstöðum í Suðursveit og systur hans Valgerðar Gísladóttur (f. 1898). Upptökuna gerði Hallfreður Örn Eiríksson 1967. Tóntegund: Lydísk.

 

Hvað mundi vera hjartað mitt (36. sálmur).

Tilvitnun Hallgríms er „Hvað mundi vera hjartað mitt“, en það á óefað við um lagboðann sem annars heitir „Hvar mundi vera hjartað mitt“. Uppruni þessa lags er mjög óviss, hugsanlega er það þýskt lag frá byrjun 17. aldar með íslenskum breytingum. Það kemur fyrst fyrir á prenti á Íslandi í handritinu Hymnódía Sacra frá 1742 (s. 382).

Í efnisskrá Sálmasöngsbókar 1936 er við 34. Passíusálm vísað á þennan lagboða nr. 73. Sú laggerð er lík laginu í Hymnódía Sacra en þó meir með yfirbragði tvíssöngslaggerðar sem fram kom hjá Bjarna Þorsteinssyni 1906-09. Róbert A. Ottósson birti tvísöngsútsetningu á því lagi í bók sinn 22 Helgisöngvar árið 1967 við sálminn „Ó maður, hvar er hlífðarskjól“ eftir Matthías Jochumsson. Sú laggerð við þann sálm er í Sálmasöngsbók Viðbæti 1976 nr. 268. Engin erindi eru úr 36. Passíusálmi í Sálmabók 1972.

Laggerð Sólrúnar Helgu Guðjónsdóttur er mjög skreytt gerð sem rekja má til lagsins í Hymnódía Sacra.Bjarni Þorsteinsson birtir tvö lög við 34. Passíusálm í bók sinn Íslenzk þjóðlög. Fyrri laggerðinni svipar nokkuð til lagsins í Hymnódía Sacra nema 1./3. hending er verulega frábrugðin og er hún nokkuð skreytt. Hin laggerðin er eins og áður segir slétt tvísöngslaggerð sem svipar mjög til lagsins í Hymnódía Sacra.

notur36

Við niðurskrift nótnanna var stuðst við söng Sólrúnar Helgu Guðjónsdóttur (f. 1899). Upptökuna gerði Helga Jóhannsdóttir 1970. Tóntegund: Lydísk.

 

Hæsti Guð, herra mildi. (26. sálmur).

Þetta lag er komið af þýska lagboðanum „O, reichter Gott im Throne“. Það er með þessum sálmtexta í öllum Gröllurum en í Hólabókum 1589 og 1619 er það við annan sálm, „Vak í nafni vors Herra“. Sálmurinn „Hæsti Guð, herra mildi“ er í Hólabókum án nótna en með lagboðanum „Vak í nafni vors Herra“. Þessi sálmur kemur ekki fyrir í yngri sálmabókum.

Í efnisskrá Sálmasöngsbókar 1936 er við 26. Passíusálm vísað á þennan lagboða nr. 85. Það líkist nokkuð laginu í Gröllurum, en er útjafnað að hrynmynd og tvær síðustu hendingar lagsins eru frábrugðnar. Lagið birtist fyrst í þeirri mynd hjá Pétri Guðjónssyni í sálmabók hans 1861. Ekkert erindi er úr 26. Passíusálmi í Sálmabók 1972.

Í bókinni Íslenzk þjóðlög (s. 745-46) segir Bjarni Þorsteinsson um 26. Passíusálm: „Lagið er nóterað eptir Þorleifi á Siglunesi, en hann þóttist ekki alveg viss um, að hann myndi það alveg rjett; hið sama hafa og margir eða flestir aðrir sagt, er jeg hef minnzt á þetta lag við“. Lagboðinn „Hæsti Guð, herra mildi“ er til við aðra sálma í öllum útgefnum sálmabókum þannig að ég vil draga þá ályktun að 26. Passíusálmur hafi ekki verið í eins miklum metum og aðrir Passíusálmar og hafi ekki verið mikið sunginn og því hafi menn gleymt laginu við hann, þó svo að lagboði hans hafi verið sunginn við aðra sálma. Ég hef aðeins þrjú dæmi undir höndum um laggerðir við þennan Passíusálm og þetta er eini sálmurinn sem þau systkinin Skarphéðinn Gíslason og Valgerður Gísladóttir sungu ekki þegar Hallfreður Örn Eiríksson hljóðritaði söng þeirra á öllum öðrum Passíusálmum árið 1967.

Ef til vill má leiða rök að því að efni 26. Passíusálms hafi ekki fallið mönnum eins vel í geð og efni annarra sálma, en í honum fjallar Hallgrímur um hlýðni við „valdsmenn alla“ og straff þeirra sem misbrjóta. Eins má benda á að 26. Passíusálmur kemur á eftir 25. Passíusálmi, 14. erindi: „Son Guðs ertu með sanni“, en það erindi er einn af hápunktum Passíusálmanna og eitt af mjög fáum lofgjörðarversum þeirra. Það kann að hafa verið erfitt fyrir Hallgrím að ná sér aftur á „flug“ eftir slíka lofgjörð.

Söngdæmi það sem ég sýni hér er „lagfærð“ gerð af söng Guðmundar Ingimundarsonar sem hljóðritaður var á vaxhólk árið 1907. Ég sýni einungis kjarnann í söng Guðmundar, þ.e. lagið sjálft án persónulegs skrauts hans sem nær útilokað er að líkja eftir í söng. Laggerð Bjarna Þorsteinssonar í Íslenzkum þjóðlögum (s. 745), skráð eftir Þorleifi Þorleifssyni á Siglunesi, er ekki mjög lík laggerð Guðmundar, en Bjarni birtir aðra laggerð sem hann fékk hjá Finni Jónssyni á Kjörseyri, og líkist hún mjög laggerð Guðmundar. Engin þessara laggerða líkist upprunalegum lagboða Hallgríms.

notur26

Við niðurskrift nótnanna var stuðst við söng Guðmundar Ingimundarsonar (f. 1830) frá Bóndhól í Borgarfirði. Upptökuna gerði Jón Pálsson 1907.

Jesús Guðs son eingetinn. (13. sálmur).

Þetta lag er frá þýska sálmalaginu „Herr Christ der einig Gottes Sohn“ frá 1524, en það telst vera eldra sem veraldlegt lag (frá 15. öld). Það er án nótna í Hólabók 1589 en er með nótum í rytmískri taktgerð í Hólabók 1619 og öllum Gröllurum. Lagið er í dúr-tóntegund en þó eru sterk áhrif frá sammarka molltóntegund í gerð þess.

Pétur Guðjónsson birti þetta lag í útjafnaðri hrynmynd í Íslenzkri sálmasöngs- og messubók 1861 en hann breytti heiti þess í „Sá vitnisburðinn valdi“ og hefur sá lagboði haldist við þetta lag. Í Sálmasöngsbók 1936 er í efnisskrá fyrir 13. Passíusálm vísað á þann lagboða sem er nr. 163. ÍSálmabók 1972 er enginn sálmur með versum úr þessum Passíusálmi og í henni er enginn sálmur með þessum lagboða.

Laggerð Sólrúnar Helgu Guðjónsdóttur svipar töluvert til frumgerðarinnar, þó orðið á henni veigamiklar breytingar. Laggerð Bjarna Þorsteinssonar í Íslenzk þjóðlög (s. 737) við 13. Passíusálm er nokkuð lík nema að þar er lagið í frygískri tóntegund. Bjarni vísar á handrit séra Sigtryggs Guðlaugssonar á Núpi í Dýrafirði með tveimur laggerðum við þetta lag, önnur þeirra líkist meir laggerð Bjarna en hin líkist meir þeirri sönggerð sem ég hef valið.

13notur

Við niðurskrift nótnanna var stuðst við söng Sólrúnar Helgu Guðjónsdóttur (f. 1899) í Króksfjarðarnesi. Upptökuna gerði Helga Jóhannsdóttir 1970. Tóntegund: Moll.

 

Jesú Kriste, þig kalla ég á. (9. sálmur. 21. sálmur).

Þessi lagboði er frá þýska laginu „Ich ruf zu dir, Herr Jesu Christ“ (1535). Hann kemur ekki fyrir í Gröllurum en er í Hólabókum 1589 og 1619. Þar er hann með einu viðbótaratkvæði í 7. hendingu og tveimur viðbótaratkvæðum í 8. hendingu. Þetta lag er því öðru vísi en í dönskum og þýskum sálmabókum og orðið að séríslenskri gerð.

„Ich ruf zu dir, Herr Jesu Christ“: 9: 8 7 8 7 8 7 4 6 7
„Jesú Kriste, þig kalla´ ég á“:       9: 8 7 8 7 8 7 5 8 7

Í bók Jónasar Jónssonar Passíusálmar með fjórum röddum frá 1906-07 er lagið við þessa Passíusálma eins og í Hólabókunum. Í bók Péturs Guðjónssonar Íslenzk sálmasaungs- og messubók með nótum frá 1861 er laginu breytt í samræmi við þýska lagboðann. Í Sálmasöngsbók1936 er í efnisskrá fyrir 9. og 21. Passíusálm vísað á þennan lagboða nr. 95 þar sem hann er einnig eins og þýski lagboðinn. Í Sálmabók 1972 eru ekki vers úr 9. Passíusálmi en tveir sálmar eru með versum úr 21. Passíusálmi; sálmur nr. 230 (5. vers) og nr. 371 (13. vers). Þar er vísað til lagboðans í Sálmasöngsbókinni, en ekki er hægt að syngja þá rétt nema að bæta við tónum. Í Sálmabók 1997 er lagið við þessa sálma eins og íslensk gerð lagboðans er í Hólabókunum.

Laggerð þeirra systkina Skarphéðins og Valgerðar er það fjarlæg lagboðanum að það er varla hægt að sjá að lagið sé skylt honum. Lag Bjarna Þorsteinssonar í Íslenzk þjóðlög (s. 732) er nokkuð líkt því söngdæmi sem ég valdi.

9notur

 

Við niðurskrift nótnanna var stuðst við söng Skarphéðins Gíslasonar (f. 1895) á Vagnstöðum í Suðursveit og systur hans Valgerðar Gísladóttur (f. 1898). Upptökuna gerði Hallfreður Örn Eiríksson 1967. Tóntegund: Frekar mixólydísk en dúr sem endar á 5. skalatóni.

 

Jesús sem að oss frelsaði. (38. sálmur).

Þetta lag er komið af þýska lagboðanum „Erbarm dich mein, O Herre Gott“ frá 1524. Það lag er við sálminn „Jesús sem að oss elskaði“ í Hólabókum 1589 og 1619 en kemur ekki inn í Grallarann fyrr en í 6. útgáfu

Í efnisyfirliti í Sálmasöngsbók 1936 er vísað á lagboðann „Sál dufti klædd, ei sómir þér“ nr. 161, en það lag er eftir danska sálmaskáldið A. P. Berggreen frá 1844. Engin erindi eru úr 38. Passíusálmi í Sálmabók 1972.

Ekki er hægt að sjá nein líkindi með laggerð þeirra systkina Skarphéðins Gíslasonar og Valgerðar Gísladóttur við uppgefinn lagboða. Bjarni Þorsteinsson birtir tvær laggerðir sem líkjast nokkuð hvor annarri í bók sinni Íslenzk þjóðlög. Þær laggerðir eru heldur ekki neitt líkar uppgefnum lagboða við þennan Passíusálm.

notur38

Við niðurskrift nótnanna var stuðst við söng Skarphéðins Gíslasonar (f. 1895) á Vagnstöðum í Suðursveit og systur hans Valgerðar Gísladóttur (f. 1898). Upptökuna gerði Hallfreður Örn Eiríksson 1967. Tóntegund: Dúr.

Kom andi heilagi. (12. sálmur).

Þetta lag er komið af þýska laginu „Danket dem Herren, den er ist sehr freundlich“ frá 1546. Það er án nótna í 1. útgáfu Grallarans en með nótum í öllum Gröllurum eftir það. Lagið finnst ekki undir þessu heiti í Hólabókum 1589 og 1619 heldur er það þar undir lagboðanum „Sæll ertu sem þinn Guð“.

Í Sálmasöngsbók 1936 er í efnisskrá fyrir 12. Passíusálm vísað á lagboðann „Kom andi heilagi“ nr. 103. Tveir sálmar eru í Sálmabók 1972 með versum úr 12. Passíusálmi, nr. 309 (27., 28. og 29. vers) og nr. 323 ( 20., 21. og 23. vers) og vísa þeir báðir til lagboðans í Sálmasöngsbók1936. Í Sálmabók 1997 er sama lag og í Sálmasöngsbókinni.

Ég hef mjög mörg dæmi um þetta lag, en sú laggerð sem Halla Loftsdóttir syngur er mjög skýr og ein sú einfaldasta í formi. Það má sýna fram á líkindi með frumgerðinni, en þetta lag er orðið rammíslenskt í lydísku tóntegundinni. Lag Bjarna Þorsteinssonar í Íslenzk þjóðlög (bls. 735) er nokkuð líkt þessu lagi en þó með frávikum.

12notur

Við niðurskrift nótnanna var stuðst við söng Höllu Loftdóttur (f. 1886) frá Kollabæ í Fljótshlíð. Upptökuna gerði Hallfreður Örn Eiríksson 1969. Tóntegund: Lydísk.

 

Konung Davíð, sem kenndi. (25. og 33. Passíusálmur).

Þetta lag er komið af hollenska lagboðanum „Ick had enn gehstadich minneken“, en það er Saltarasálmur úr Souterliedkens frá 1540. Þessi sálmur er í báðum Hólabókum, 1589 og 1619 og í öllum útgáfum Grallarans. Þetta lag hefur ekki verið sungið við vers úr 25. eða 33. sálmi eins og sjá má hér að neðan, en það er prentað í útjafnaðri gerð í Sálmabók 1997 við sálm nr. 313, en það eru vers úr 16. Passíusálmi. Lagboði við þann Passíusálm hjá Hallgrími Péturssyni er „Af hjarta, hug og munni“, en það er einn af þeim lagboðum sem ekki hefur tekist að finna hvaðan eru upprunnir (sjá nánar í umfjöllun um þann sálm).

Í efnisskrá Sálmasöngsbókar 1936 er við 25. og 33. Passíusálm vísað á lagboðann „Konung Davíð, sem kendi“ nr. 109. Það er allt annað lag, mjög breytt gerð af þýska lagboðanum „Aus meinem Herzen Grunde“ frá 1598, en það finnst bæði í Hólabókunum og Gröllurunum. Í efnisskrá Sálmasöngsbókarinnar 1936 er einnig vísað á þennan lagboða í 16. sálmi. Í Sálmabók 1972 er enginn sálmur með versum úr 33. sálmi en tveir sálmar er með versum úr 25. sálmi. Í báðum sálmunum, nr. 56 (14. vers) og nr. 272 (9., 10. og 11. vers) er vísað í lagboðann „Konung Davíð sem kenndi“, en sú tilvísun á að sjálfsögðu við um Sálmasöngsbók 1936. Í Sálmabók 1997 er lagið úr Sálmasöngsbók 1936 prentað við báða þessa sálma, en það er sérkennilegt að lagið við nr. 56 er í Es-dúr en við nr. 272 er það í F-dúr.

Þær laggerðir sem ég hef undir höndum við Passíusálma nr. 25 og 33 eru allar afbrigði af lagboðanum „Gæsku Guðs vér prísum“ (sjá umfjöllun um 7. Passíusálm). Samkvæmt íslenskri sönghefð virðist því sama lagið hafa verið sungið við 7., 25. og 33. Passíusálm og að þær laggerðir hafi allar verið afbrigði af lagboðanum „Gæsku Guðs vér prísum“. Sú laggerð sem ég sýni við þessa Passíusálma er sungin af þeim systkinum Skarphéðni Gíslasyni og Valgerði Gísladóttur. Í sumum tilfellum söng fólk einnig sama lagið við 16. Passíusálm, samanber aðra laggerð af þessu sama lagi sem ég sýni við 16. sálm, sungna af Sólrúnu Helgu Guðjónsdóttur, en einnig virðist sem laggerð sem komin er af lagboðanum „Konung Davíð sem kenndi“ hafi verið sungin við þann sálm. Í bókinni Íslenzk þjóðlög (s. 745 og 751) gefur Bjarni Þorsteinsson upp að sama lag sé sungið við Passíusálma nr. 25 og 33 og við 7. Passíusálm en við 16. Passíusálm er hann með laggerð sem er greinilega komin af lagboðanum   „Konung Davíð sem kenndi“.

notur2533

Við niðurskrift nótnanna var stuðst við söng Skarphéðins Gíslasonar (f. 1895) á Vagnstöðum í Suðursveit og systur hans Valgerðar Gísladóttur (f. 1898). Upptökuna gerði Hallfreður Örn Eiríksson 1967. Tóntegund: Hypólydísk.

Krists er koma fyrir höndum. (15. sálmur).

Þetta lag er frá þýska lagboðanum „Lob(t) Gott getrost mit Singen“. Í Hólabók 1589 er sálmtextinn „Krists er koma fyrir höndum“ án nótna en við hann stendur lagboðinn „Þér Dottinn ég þakkir gjöri“. Í Grallara 1594 er lagið „Lob(t) Gott getrost mit Singen“ skráð við þennan sálmtexta, eins er í 2. útgáfu Grallarans 1607, í 2. útgáfu Hólabókar 1619 og öllum Gröllurum eftir það. Þannig hefur þetta lag fengið heitið „Krists er koma fyrir höndum“ sem lagboða. Það er nú þekktast í útsetningu Róberts A. Ottóssonar við sálminn „Mín sál þinn söngur hljómi“ úr bókinniTuttugu og tveir helgisöngvar 1967.

Í efnisskrá Sálmasöngsbókar 1936 er vísað á lag nr. 110 með lagboðanum „Krists er koma fyrir höndum“ en það er allt annað lag, upprunalega franskt „Saltaralag“ frá 1539, „Au fond de ma pensee“ við Davíðssálm nr. 130, á þýsku „Zu dir von Herzen Grunde“. Það lag kom fyrst inn á Íslandi hjá Pétri Guðjónssyni í Sálmasaungs- og messubók 1861 (nr. 53) og þá með lagboðanum „Krists er koma fyrir höndum“. Í Sálmabók 1972 er í sálmi nr. 125 (12. vers 15. Passíusálms) vísað til þessa lagboða. Lagið við þennan sálm í Sálmabók 1997 er rytmísk gerð af laginu sem í Sálmasöngsbók 1936 er skráð nr. 80a undir lagboðanum „Hversu mig leysast langar“ frá 1653. Það lag er komið af þýska sálminum og lagboðanum „Befiehl du deine Wege“, sem í íslenskri þýðingu er sálmurinn „Á hendur fel þú honum“. Þar sem til er mjög vel þekkt og frambærileg gerð af upprunalegum lagboða hefði það lag gjarnan mátt standa við þennan sálm.

Það má greinilega sjá skyldleika upprunalegs lagboða Hallgríms við þær laggerðir þjóðlaganna sem ég hef undir höndum og sungnar voru við þennan sálm, en þó hafa þær fjarlægst hann það mikið að þær eru orðnar að sérstökum lögum. Laggerð Bjarna Þorsteinssonar við 15. Passíusálm íÍslenzk þjóðlög (s. 738) svipar nokkuð til þeirra laggerða sem ég hef skráð, en lokahending hans laggerðar er nokkuð sérstæð og ekki í samræmi við það sem ég hef séð.

15notur

Við niðurskrift nótnanna var stuðst við söng Guðrún Magnúsdóttur (f. 1886) í Drangshlíð, A-Eyjafjöllum. Upptökuna gerði Þórður Tómasson 1969. Tóntegund: Lydísk.

 

Lifandi Guð, þú lít þar á. (34. sálmur).

Þetta lag er komið af þýska lagboðanum „Ach Gott vom Himmel, sieh darein“ frá 1524. Sálmtextinn „Lifandi Guð, þú lít þar á“ er með þessu lagi í öllum Gröllurum. Hann er án nótna í Hólabókum en þá er gefinn upp við hann lagboðinn „Ó mildi Jesú sem manndóm tókst“. Sá sálmur er líka til í Gröllurunum en þá með öðru lagi.

Í efnisskrá Sálmasöngsbókar 1936 er við 34. Passíusálm vísað á nr. 2 sem er lagboðinn „Af djúpri hrygð ákalla eg þig“. Nr. 2a er lag sem byggist á lagboðanum „Aus tiefer Not rufe ich zu dir“ en nr. 2b er lag sem byggist á latneskum hymna, „De profundis“. Það lag er reyndar lagboðinn við 41. Passíusálm. Í efnisskrá Sálmasöngsbókar 1936 er einnig við 37. Passíusálm vísað á lagboða nr. 2 en lagboði Hallgríms við þann sálm er „Ef Guð er oss ei sjálfur hjá“. Í Sálmabók 1972 er í sálmi nr. 184 (34. Passíusálmur erindi 4, 7, 9 og 10) og nr. 439 (34. Passíusálmur erindi 11) vísað í lagboðann „Af djúpri hrygð ákalla eg þig“. Í Sálmabók 1997 er prentuð við sálm nr. 184 laggerðin nr. 2a í Sálmasöngsbók 1936 „Af djúpri hrygð ákalla eg þig“ sem er útjöfnuð gerð í hrynmynd en við sálm nr. 439 er prentuð rytmísk gerð af sama lagi.

Samkvæmt þeim dæmum sem ég hef um söng við 34. Passíusálm var sungið sama lag við hannog við 37. Passíusálm, en þær laggerðir byggjast á lagboðanum „Hver, sem að reisir hæga bygð“. Ég hef engin söngdæmi undir höndum sem líkjast upprunalegum lagboða við 34. Passíusálm. Laggerð Sólrúnar Helgu Guðjónsdóttur er greinilega komin af lagboðanum „Hver, sem að reisir hæga bygð“. Laggerð Bjarna Þorsteinssonar í bókinni Íslenzk þjóðlög (s. 751) er mjög skyld lagboðanum „Lifandi guð, þú lít þar á“ eins og hann er íGröllurunum. Þar er lagið í tóntegund sem er blanda af frygískri og dórískri tóntegund en laggerð Bjarna er í mixólydískri tóntegund.

notur3437

Við niðurskrift nótnanna var stuðst við söng Sólrúnar Helgu Guðjónsdóttur (f. 1899). Upptökuna gerði Helga Jóhannsdóttir 1970. Tóntegund: Lydísk.

 

Með hymnalag (1. sálmur)

„Með hymnalag“ þýðir að hér eigi að syngja lag eins og algengast hefur verið við ævafornan hátt lofgjörðarversa, hymna, sem nú eru nefndir sálmar (það orð á upprunalega eingöngu við um Davíðssálma Biblíunnar). Ekki er hægt með fullri vissu að segja til um hvaða lag Hallgrímur á við. Sálmurinn er fjögur vísuorð þar sem hvert vísuorð hefur átta atkvæði. Samtals eru sjö aðrir Passíusálmar með fimm lagboðum í sama hætti.

Í fjórðu útgáfu Passíusálmanna 1690 er við 1. sálm skráð á nótum lagið „Minnstu, ó maður, á þinn deyð“ („Wenn wir in höchsten Nöten sein“) sem fyrst birtist á nótum í Grallara 1594. Þar stendur einnig tilvísunin: „Má syngjast undir þessum nótum“, en enginn þeirra sem ég hef hlustað á syngur afbrigði af því lagi. Ég vil því draga þá ályktun, að annað lag eða önnur lög hafi verið búin að festa sig í sessi við þennan sálm áður en fjórða útgáfa sálmanna kom út. Þetta lag (í rytmískri gerð) er skráð við erindi úr 1. Passíusálmi í Sálmabók 1997, sjá t.d. nr. 130.

Í Sálmabók 1972 er vísað til lagboðans „Ofan af himnum hér kom ég“ („Von Himmel hoch da komm ich her“) í þeim erindum sem þar eru úr 1. Passíusálmi. Hann er í Sálmasöngsbók 1936 nr. 141a, en undir sama heiti nr. 141b er laggerð sem er „lagfæring“ og útsetning Páls Ísólfssonar á íslenska þjóðlaginu sem er afbrigði af lagboðanum „Skapari stjarna, Herra hreinn“. Tilgreindur lagboði er því rangur. Lagboðinn „Minnstu, ó maður, á þinn deyð“ er í Sálmasöngsbók 1936 nr. 127.

Áður fyrr var algengt að sungið væri sama lag við 1. sálm og við 14. og 43. sálm, en lagboði þeirra sálma er „Allfagurt ljós oss birtist brátt“. Einnig var algengt að syngja sama lag við 1. sálm og við 27. og 40. sálm, en það er afbrigði af lagboðanum „Skapari stjarna, Herra hreinn“. Í bók sinni Íslensk þjóðlög (s. 725) skráir Bjarni Þorsteinsson lag sem ég hef ekki getað fundið frumheimildir fyrir.

Mjög margar hljóðritanir eru til af söng 1. Passíusálms, þar sem þeir sem hljóðrituðu þjóðfræðaefnið spurðu oft beint hvort fólk kynni 1. vers í 1. Passíusálmi og fengu því fólk til að syngja þennan sálm jafnvel þó að það væri ekki lengur visst á því hvernig hann hefði verið.

1notur

 

Við niðurskrift nótnanna var stuðst við söng Skarphéðins Gíslasonar (f. 1895) á Vagnstöðum í Suðursveit og systur hans Valgerðar Gísladóttur (f. 1898). Upptökuna gerði Hallfreður Örn Eiríksson 1967. Þau systkin sungu sama lag við 1., 14. og 43. sálm. Lagið virðist vera í sérstöku afbrigði af frygískri tóntegund.

Með líksöngslag. (49. sálmur).

Lagboðinn „Nú látum oss líkamann grafa“ sem er lagboði 32. Passíusálms, er eina líksöngslagið í Hólabókum og Gröllurum með þessum sama bragarhætti (4: 8 8 8 8 ||).

Í efnisyfirliti í Sálmasöngsbók 1936 er fyrir 49. Passíusálm vísað á lagboðann „Nú látum oss líkamann grafa“ nr. 136. Í Sálmabók 1972 er í sálmi nr. 278 (49. Passíusálmur, erindi 19, 21 og 22) vísað í lagboðann „Nú látum oss líkamann grafa“. Í Sálmabók 1997 er við sálm nr. 278 prentað lagið nr. 136 úr Sálmasöngsbók 1936 með þeim breytingum að fyrst nóta hverrar hendingar er lengd til þess að skapa áhrif rytmískrar laggerðar. Þetta lag hefur aldrei verið til hér á landi með þessum hætti og slíkur söngmáti er frekar leiðinlegur.

Laggerð Sigríðar Árnadóttur er ekki skyld lagboðanum „Nú látum oss líkamann grafa“. Þetta er mjög sérstakt lag í lókritískri tóntegund, þ.e. sammarka dúrtóntegund á 7. skalatóni. Laggerð Bjarna Þorsteinssonar í bókinni Íslenzk þjóðlög (s. 762) er mjög svipuð laggerð Sigríðar og greinilega af sama lagboða, en tóntegund lagsins er frygísk.

notur49

Við niðurskrift nótnanna var stuðst við söng Sigríðar Árnadóttur (f. 1867). Upptökuna gerði Þórður Tómasson 1955 eða 1956. Tóntegund: Lókritísk.

 

Með sínu lagi. (50. sálmur).

Þetta er eini Passíusálmurinn þar sem Hallgrímur Pétursson gefur ekki upp lagboða, en mér hefur ekki tekist að finna eldri sálm eða lagboða sem byggður er upp á sama hátt og 50. Passíusálmur; 5: 8 8 8 4 8 ||. Í 4. útgáfu Passíusálmanna 1690 er prentaður við þennan sálm sem lagboði „Guðs góði son“, en lagið er greinilega sama lag og lagboðinn „Eins og sitt barn“ sem er lagboði 29. og 42. Passíusálms. Uppbygging lagboðans er 5: 8 7 8 4 7 ||, einungis er bætt við aukanótum í byrjun 2. hendingar og í lok 5. hendingar til þess að lagið passi við 50. Passíusálm.

Í efnisyfirliti í Sálmasöngsbók 1936 er fyrir 50. Passíusálm vísað á lagboðann „Guðs góði son, mín gleði og von“ frá 1605. Þetta lag hefur ekki komið fyrir áður í sálmabókum á Íslandi, en það er athyglisvert að þessi lagboði skyldi hafa verið tilgreindur í 4. útgáfu Passíusálmanna eins og ég gat um hér að framan. Í Sálmabók 1972 er við sálm nr. 146 (50. Passíusálmur erindi 18) prentað lag sem Páll Halldórsson skrifaði niður eftir séra Sigmari Torfasyni, en það er ekki nákvæmlega eins og séra Sigmar söng það samkvæmt fleiri en einni upptöku með söng hans og staðfestingu hans sjálfs. Þessi laggerð er greinilega komin af lagboðanum „Eins og sitt barn“ með nauðsynlegum aukaatkvæðum. Í Sálmabók 1997 er við sálm nr. 146 laggerð séra Sigmars leiðrétt. Í bókinni Íslenzk þjóðlög gefur Bjarni Þorsteinsson upp að sama lag sé sungið við 50. Passíusálm og við 29. Passíusálm.

notur50

Við niðurskrift nótnanna var stuðst við söng Sigmars Torfasonar (f. 1918). Upptökuna gerði Smári Ólason 1992. Tóntegund: Dúr.

 

Mitt hjarta hvar til (hryggist þú). (19. sálmur).

Þetta lag er komið af þýska lagboðanum „Warum betrübst du dich mein Herz“. Það er í Hólabókum 1589 og 1619 en kemur ekki inn í Grallara fyrr en í 6. útgáfu.

Í efnisskrá Sálmasöngsbókar 1936 er við 19. Passíusálm vísað á þennan lagboða nr. 128. Það lag er mjög líkt laginu í Hólabókunum en þó með vissum frávikum. Ekkert erindi er úr 19. Passíusálmi í Sálmabók 1972.

Laggerð Höllu Loftsdóttur er greinilega komin af lagboðanum en er orðin að sjálfstæðu lagi.

notur19

Við niðurskrift nótnanna var stuðst við söng Höllu Loftsdóttur (f. 1886) í Kollabæ í Fljótshlíð. Upptaka: Þórður Tómasson 1969. Tóntegund: Lydísk.

 

Náttúran öll og eðli manns. (35. sálmur).

Þetta lag er frá þýska lagboðanum „Durch Adams Fall ist ganz verderbt“. Það er skráð í öllum útgáfum Grallarans við sálminn „Náttúran öll og eðli manns“ en í Hólabók 1589 er þetta lag við sálminn „Guðs rétt og voldug verkin hans“. Í Hólabók 1619 er það eins og í Gröllurunum við sálminn „Náttúran öll og eðli manns“.

Í efnisyfirliti Sálmasöngsbókar 1936 er fyrir 35. Passíusálm vísað á lagboðann „Hásæti fyrir Herrans hér“ nr. 52, en það er lag eftir danska tónskáldið A. P. Berggreen frá miðri 19. öld. Það lag, sem er í fjórskiptum takti með upptakti, passar mjög illa við kveðskap Hallgríms, stuðlar og höfuðstafir og áherslur orða falla þráfaldlega á veika takthluta. Í Sálmabók 1972 er í sálmi nr. 532 (35. sálmur 9. vers) vísað til þessa lagboða en jafnframt er vísað til „með þessu lagi“ og þar er skráð laggerð Bjarna Þorsteinssonar úr bók hans Íslenzk þjóðlög (s. 752) við 35. Passíusálm. Það lag er komið af lagboðanum „Sælir eru þeim sjálfur Guð“ (sjá nánar í umfjöllun um þann lagboða). Í Viðbæti við sálmasöngsbók 1976 er við sálm nr. 532 prentuð tvísöngsútsetning Róberts A. Ottóssonar á þessu lagi og hún er einnig birt í Sálmabók 1997.

Þar sem allar þær sönggerðir sem ég hef undir höndum, bæði við 35. Passíusálm og við 18. Passíusálm eru komnar af lagboðanum „Náttúran öll og eðli manns“ þá er hér birt lag þeirra systkina Skarphéðins og Valgerðar eins og þau sungu það við þessa tvo sálma. Laggerð Bjarna Þorsteinssonar við 18. Passíusálm (s. 740) er mjög lík því lagi.

notur183538

Við niðurskrift nótnanna var stuðst við söng Skarphéðins Gíslasonar (f. 1895) á Vagnstöðum í Suðursveit og systur hans Valgerðar Gísladóttur (f. 1898). Upptökuna gerði Hallfreður Örn Eiríksson 1967. Tóntegund: ??

 

Nú bið ég Guð þú náðir mig. (28. sálmur).

Þetta lag er úr sálmabók Thommis¢ns og heitir þar „O, herre Gud benaade mig“. Samkvæmt danska sálmafræðingnum Henrik Glahn hefur ekki tekist að rekja það lengra aftur. Þetta lag er við þennan sálmtexta í öllum Gröllurum og í Hólabók 1619 í g-dórískri tóntegund, en sálmurinn er án nótna í Hólabók 1589.

Í efnisskrá Sálmasöngsbókar 1936 er við 28. Passíusálm vísað á lagboðann „Ofan af himnum hér kom ég“ nr.141. Lagboðinn „Nú bið ég Guð þú náðir mig“ er hér nr. 131. Sú laggerð sem er við hann kemur fyrst fyrir í þriggja radda Sálmasöngsbók Péturs Guðjónssonar frá 1878, en hún er aðeins frábrugðin laginu eins og það er í Hólabók og Gröllurum. Enginn sálmur er í Sálmabók 1972 með erindum úr 28. Passíusálmi.

Laggerð Benedikts Sigurðssonar er mjög lítið skreytt, en þetta er eina söngdæmið sem ég hef undir höndum sem líkist frumgerð lagsins. Benedikt söng eitt vers af hverjum Passíusálmi inn á hljómplötu hjá Ríkisútvarpinu, en svo virðist sem hann hafi lært lögin við sálmana eftir þeirri hefð sem ruddi sér til rúms eftir að Magnús Stephensen flutti til landsins pípuorgel í byrjun 19. aldar og hóf að spila hljómsetta sálma eftir handriti að sálmasöngbók H. O. C Zinck sem kom út 1801, ári eftir að Magnús dvaldi í Kaupmannahöfn. Sá háttur var tekinn upp í Bessastaðaskóla að syngja gömlu sálmalögin án skreytinga, eina nótu á móti einu atkvæði á sama hátt og þau voru í handriti Zincks. Þetta var ákveðið millistig í þeirri þróun sem síðar varð til þess að „gömlu lögin“ viku fyrir „nýju lögunum“ sem Pétur Guðjónsson prentaði í Sálmasöngsbók sinni 1861.

notur28

Við niðurskrift nótnanna var stuðst við söng Benedikts Sigurðssonar frá Flatey á Mýrum, A-Skaftafellssýslu. Aldur óviss. Hljóðritað á hljómplötu í Ríkisútvarpinu, líklega á tímabilinu 1946-48. Tóntegund: Lydísk.

Nú látum oss líkamann grafa (32. sálmur).

Þetta lag er komið af þýska lagboðanum „Nun laßt uns den Leib begraben“ sem talið er vera frá 1542/44. Það er með þessum sálmtexta í 1. útgáfu Grallarans 1594 en er ekki í 2.-5. útgáfu Grallarans. Það er með sama hætti í Hólabók 1619 en sálmurinn er án nótna í Hólabók 1589. Í 4. útgáfu Passíusálma Hallgrím Péturssonar sem gefin var út í Skálholti 1690 er prentað lag við 32. Passíusálm. Tilvísun lagsins er: „Með himnalag / eður þeßum nótum“. Þetta lag er lagboðinn „Nú kom heiðinna hjálparráð“. Hann er í báðum Hólabókum og í öllum Gröllurum nema í 1. útgáfu. Það lag er komið af latneskum hymna, „Da pacem Domine“, þýski lagboðinn er „Verleih uns Frieden gnödelich“ og er frá 1529.

Í efnisskrá Sálmasöngsbókar 1936 er vísað í lagboðann „Nú kom heiðinna hjálparráð“ nr. 135. Það lag er uppskrift Sigurðar Þórðarsonar á íslensku sálmalagi, þjóðlagi sem greinilega er laggerð af lagboðanum „Nú kom heiðinna hjálparráð“ sem eins og áður sagði var prentaður við þennan sálm í 4. útgáfunni. Frumgerð þess lags er í Sálmasöngsbók Viðbæti 1976 við sálm nr. 67, „Nú kemur heimsins hjálparráð“. Í Sálmabók 1972 er í sálmi nr. 135 (32. Passíusálmur erindi 2, 4, 5, 13, 19, 21 og 22) vísað í upprunalegan lagboða Hallgríms, „Nú látum oss líkama grafa“ nr. 136. Það lag er mjög líkt lagboðanum í Hólabókum og Gröllurum. Í Sálmabók 1997 er það lag við sálm nr. 135.

Sigmar Torfason syngur lag sitt nákvæmlega eins og laggerð Sigurðar Þórðarsonar er í Sálmasöngsbók 1936 nr. 135 við lagboðann „Nú kom heiðinna hjálparráð“ nema hann bætir við einni skrautnótu. Bjarni Þorsteinsson birtir tvær laggerðir við 32. Passíusálm í bók sinni Íslenzk þjóðlög(s. 750-51). Þær laggerðir eru báðar svipaðar laggerðum þeirra Sigurðar og Sigmars.

notur32

Við niðurskrift nótnanna var stuðst við söng Sigmars Torfasonar (f. 1918). Upptökuna gerði Smári Ólason 1992. Tóntegund: Dúr / lydísk.

 

Oss lát þinn anda styrkja. (23. sálmur).

Þetta lag er komið af þýska lagboðanum „Hilf Gott, daß mir gelinge“. Sálmurinn er í Hólabók 1589 án nótna en með nótum í Hólabók 1619 og í öllum útgáfum Grallarans.

Í efnisskrá Sálmasöngsbókar 1936 er við 23. Passíusálm vísað á þennan lagboða nr. 143. Það lag líkist lagboðanum í Hólabókinni og Gröllurunum en er örlítið frábrugðið. Í Sálmabók 1972 er í sálmi nr. 137 ( 4., 6. og 9. erindi 23. Passíusálms) vísað á þennan lagboða. Í Sálmabók1997 er sama lag við þennan sálm og í Sálmasöngsbók 1936. Nótnamyndin er þó aðeins frábrugðin, þar sem taktstrik hafa verið numin á brott, en það auðveldar söng kveðskapar eins og Passíusálmarnir eru, sem ekki er með reglulegar áhersluskiptingar.

Laggerð þeirra Skarphéðins og Valgerðar svipar nokkuð til frumgerðar en er þó orðin töluvert fjarlæg henni.

notur23

Við niðurskrift nótnanna var stuðst við söng Skarphéðins Gíslasonar (f. 1895) á Vagnstöðum í Suðursveit og systur hans Valgerðar Gísladóttur (f. 1898). Upptökuna gerði Hallfreður Örn Eiríksson 1967. Tóntegund: Hypófrygísk með endatón á 5. skalatóni.

 

Ó, Jesú, elskuhreinn. (47. sálmur).

Sálmur með þessu heiti hefur ekki fundist á prenti né lag sem hefur þennan lagboða fyrr en í handritinu Hymnódía Sacra sem skrifað var 1742. Það virðist þó hafa verið þekkt um miðja 17. öldin þar sem Hallgrímur gefur það upp sem lagboða.

Ekki er víst um uppruna þessa lags. Það virðist eiga að vera í B-lydískri tóntegund en í seinni nótnastreng vantar formerkið b.

Í efnisyfirliti í Sálmasöngsbók 1936 er fyrir 47. Passíusálm vísað á lagboðann „Kom þú, sál kristin, hér“ nr. 108 en það er lag úr Antifonale Sanctum frá 1648. Í Sálmabók 1972 er í sálmi nr. 327 (47. Passíusálmur, erindi 18, 19, 20, 21 og 23) vísað á „Með sínu lagi, eða: Kom þú, sál kristin, hér“. Við sálm nr. 327 er prentað lagið úr Sálmasöngsbók 1936 nr. 108 eins og tilvitnunin segir til um.

Laggerð séra Sigmars Torfasonar er greinalega komin af lagboðanum „Ó, Jesú, elskuhreinn“ eins og hann stendur í Hymnódía Sacra en er dálítið frábrugðin og töluvert skreytt. Laggerð Bjarna Þorsteinssonar í bókinni Íslenzk þjóðlög (s. 760-61) er mjög lík laggerð séra Sigmars.

 notur47

Við niðurskrift nótnanna var stuðst við söng Sigmars Torfasonar (f. 1918). Upptökuna gerði Smári Ólason 1992. Tóntegund: Dúr.

 

Óvinnanleg borg (er vor Guð). (20. sálmur).

Þetta lag er komið af þýska lagboðanum „Ein feste Burg ist unser Gott“. Það er talið vera eftir Martein Lúther frá 1529, en þessi sálmur og þetta lag voru meðal hornsteina siðbreytingarinnar og áttu mikinn þátt í því að breiða hana út. Sálmurinn er í Hólabók 1589 án nótna en með nótum íHólabók 1619 og í öllum útgáfum Grallarans.

Í efnisskrá Sálmasöngsbókar 1936 er við 20. Passíusálm vísað á þennan lagboða nr. 154. Það lag er mjög líkt lagboðanum í Hólabókinni og Gröllurunum en þó með vissum frávikum. Ekkert erindi er úr 20. Passíusálmi í Sálmabók 1972.

Sú laggerð sem ég sýni er eina dæmið sem ég hef undir höndum við 20. Passíusálm, en í upptöku þeirri sem Hallfreður Örn Eiríksson gerði með þeim systkinum Valgerði Gísladóttur og Skarphéðni Gíslasyni á öllum Passíusálmunum árið 1967 sungu þau Þorsteinn Guðmundsson og Valgerður saman þetta lag, en ekki Skarphéðinn og Valgerður. Laggerð Bjarna Þorsteinssonar í bókinni Íslenzk þjóðlög (s. 742) er mjög svipuð að uppbyggingu en nokkuð frábrugðin í útfærslu.

notur20

Við niðurskrift nótnanna var stuðst við söng Þorsteins Guðmundssonar (f. 1898) frá Reynivöllum, A-Skaftafellssýslu. Upptaka: Hallfreður Örn Eiríksson 1964. Tóntegund: Mixólýdísk.

 

Sá frjáls við lögmál (fæddur er). (8. sálmur, 31. sálmur).

Þessi lagboði er frá þýska laginu „Der von dem Gest gefreierter war“ (1540). Það er í Hólabók 1589 og Grallara 1594 í G-mixólydískri tóntegund með langri byrjun á 1. og 2. hendingu og lokanótum hverrar hendingar en ekki rytmískt að öðru leyti.

Í Sálmasöngsbók 1936 er í efnisskrá fyrir 8. og 31. Passíusálm vísað á þennan lagboða nr. 159. Lagið er eins nema útjafnað í rytma. Í Sálmabók 1972 er í sálmi nr. 310 með versum úr 9. Passíusálmi (13., 14., 16. og 17.) vísað til þessa lagboða. Enginn sálmur er í Sálmabókinni með versum úr 31. Passíusálmi. Í Sálmabók 1997 er sama lag og í Sálmasöngsbókinni.

Lagið sem þau systkinin Skarphéðinn og Valgerður syngja við þennan sálm er skylt lagboðanum en byrjunin er nokkuð breytt. Telja má að það sé orðið sérstakt lag. Lag Bjarna Þorsteinssonar  í Íslenzk þjóðlög (s. 732) er töluvert öðru vísi, en þó má sjá skyldleika við lagboðann.

8notur

Við niðurskrift nótnanna var stuðst við söng Skarphéðins Gíslasonar (f. 1895) á Vagnstöðum í Suðursveit og systur hans Valgerðar Gísladóttur (f. 1898). Upptökuna gerði Hallfreður Örn Eiríksson 1967. Tóntegund: Dúr.

 

Skapari stjarna, Herra (hreinn).( 27. og 40. sálmur).

Þetta lag er upprunalega latneskur hymni „Conditor Alme siterum“ frá 15. öld, en þýski lagboðinn er „Gott heiliger Schöpfer aller Stern“ frá 1531. Lagið er við þennan sálmtexta í Hólabókum 1589 og 1619 og í öllum Gröllurum nema 1. útgáfu 1594. Í frumgerð er það í a-frygískri tóntegund, þó svo það líkist meir lydískri tóntegund.

Í efnisskrá Sálmasöngsbókar 1936 er við 28. Passíusálm vísað á lagboðann „Ofan af himnum hér kom ég“ nr.141. Nr. 141a er lag sem komið er af þýska laginu „Von Himmel hoch da komm ich her“ sem er eftir Martin Lúther frá 1539. Nr. 141b er hins vegar „Íslenskt sálmalag“ í útsetningu Páls Ísólfssonar. Þetta lag er mjög greinilega laggerð af laginu „Skapari stjarna, Herra hreinn“ svo það er hér ranglega fært undir annan lagboða. Tóntegundin er breytt, en lagið er komið í dúr tóntegund. Sérstæður þrískiptur hrynháttur frumgerðarinnar hefur haldið sér í þessu lagi þannig að það er sungið sem langt-stutt, sem er mjög sjaldgæft. Sálmur nr. 41 í Sálmabók 1972 er með erindum úr 27. Passíusálmi (erindi 9, 11, 12, 13 og 15) en við hann er skrifað upp lagið nr. 141b úr Sálmasöngsbók 1936. Í Sálmabók 1972 eru þrír sálmar með erindum úr 40. Passíusálmi: nr. 138 (erindi 9, 11 og 12) en uppgefinn lagboði við hann er „Ofan af himnum hér kom ég“; nr. 438 (18. erindi), en þar er vísað til lags sem prentað er við sálm eftir Hallgrím Pétursson nr. 432, en það er lag eftir Sigfús Einarsson úr Sálmasöngsbók 1936 nr. 116; og nr. 449 (erindi 13, 14 og 15), en við þann sálm er gefið upp sem val á lagboðum: „Lag: Skapari stjarna, Herra hreinn eða: Ofan af himnum hér kom ég“. Í Sálmabók 1997 er við sálm nr. 41 prentuð laggerð Páls Ísólfssonar nr. 141b úr Sálmasöngsbók 1936 eins og vísað er til í Sálmabók 1972, en hún er lækkuð og án taktstrika. Við sálm nr. 138 er prentað lag sem er lagboðinn „Halt oss Guð við þitt hreina orð“ frá 1543, en í Viðbæti 1976 er það lag haft við endurgerð séra Sigurbjörns Einarssonar á sálmtextanum „Skaparinn stjarna“. Við sálm nr. 438 er prentað hymnalagið „Conditor Alme siterum“ í sléttum tígulnótum og við sálm nr. 449 er einnig í sléttum tígulnótum prentað hymnalagið „Rerum Deus tenax vigor“, einnig þekkt í tíðasöng sem „Iam lucis orto cidere“. Það lag hafði ekki verið notað á Íslandi fyrr en 1963 að þeir dr. Sigurður Pálsson og dr. Róbert A. Ottóson tóku það upp sem hymna við tíðasönginn „Completorium“, náttsöng, sem er kl. 21.00 að kveldi. Ég tel mjög miður að hafa svo margar laggerðir við erindi úr sama Passíusálmi.

Algengt var að syngja þetta sama lag við Passíusálm nr. 4 og birti ég það við þann sálm líka. Laggerð Steinunnar Guðmundsdóttur fellur betur að upprunalegri hrynmynd og ber með sér meiri ró en laggerð sú sem Páll Ísólfsson birti með hljómsetningu sinni í Sálmasöngsbók 1936 nr. 141b, en þar líður lagið fyrir það að vera fellt inn í fastmótaðan sexskiptan takt. Laggerð Bjarna Þorsteinssonar í bókinni Íslenzk þjóðlög (s.. 746) líkist nokkuð frumgerð lagsins en er í a-moll tóntegund.

Við niðurskrift nótnanna var stuðst við söng Steinunnar Guðmundsdóttur (f. 1888). Upptökuna gerði Hallfreður Örn Eiríksson 1964. Tóntegund: Dúr.

Sælir eru þeim sjálfur Guð. (18. sálmur).

Þetta lag er frá þýska lagboðanum „Meine Seele erhebt den Herren“ frá 1525. Það er í öllum Gröllurum undir þessum lagboða en í 6. til 19. útgáfu Grallarans er það einnig prentað við Lofsöng Zacharíasar, „Blessaður að eilífu sé“. Í Hólabók 1589 er lagið prentað við Lofsöng Zacharíasar en sálmurinn „Sælir eru þeim sjálfur Guð“ er ekki í þeim. Í Hólabókum og Gröllurum er lagið í d-dórískri tóntegund. Í Grallara 1594 er lokatónn ranglega skráður e í stað d.

Í efnisyfirliti Sálmasöngsbókar 1936 er vísað á lagboðann „Sælir eru þeim sjálfur Guð“ nr. 183. Það er sama lag og í Gröllurunum en í útjafnaðri hrynmynd. Engin erindi úr 18. Passíusálmi eru í Sálmabók 1936.

Lagboðinn „Náttúran öll og eðli manns“ er gefinn upp við 35. Passíusálm. Það lag er í a-aeólískri tóntegund en upphaf þess lags og lagsins „Sælir eru þeim sjálfur Guð“ er mjög svipað. Sama lag var sungið við 18. sálm og 35. sálm en samkvæmt þeim gögnum sem ég hef skoðað voru það frekar laggerðir sem byggðu á lagboðanum „Náttúran öll“ en „Sælir eru“.

Í bókinni Íslenzk þjóðlög er 18. sálmur á s. 740 og 35. sálmur á s. 752. Bjarni skráir heiti lagboðanna rétt við sálmana en hann víxlar laggerðunum. Lagið við 18. sálm með lagboðanum „Sælir eru“ er byggt á laginu „Náttúran öll“, og lagið við 35. sálm með lagboðanum „Náttúran öll“ er byggt á laginu „Sælir eru“, en Bjarni segir í umfjöllun að þannig hafi Guðmundur Árnason sungið fyrir hann þetta lag. Ég hef skoðað frumgögn Bjarna þar sem hann skrifar niður lögin við 18. og 35. sálm. Í öllum tilfellum eru lögin sem hann skrifar niður frekar afbrigði af lagboðanum „Náttúran öll“ og lagið sem hann hripar niður eftir Guðmundi Árnasyni er greinalega afbrigði af þeim lagboða. Öll þau dæmi sem ég hef um söng við 18. og 35. sálm eru einnig frekar undir áhrifum af lagboðanum „Náttúran öll“. Ég tel að lag Bjarna Þorsteinssonar við 35. Passíusálm í bókinni Íslenzk þjóðlög hafi aldrei verið sungið á þann hátt sem hann skráir það og það sé í raun og veru þjóðleg útfærsla hans á lagboðanum „Sælir eru þeim sjálfur Guð“. Þetta lag er eitt best þekkta „þjóðlag“ sem til er og er nú á dögum oftast sungið við 9. erindi 35. Passíusálms, „Gefðu að móðurmálið mitt“.

Róbert A. Ottósson taldi að þetta lag væri tilkomið sem samsteypa úr báðum lagboðunum (sjá nánar umfjöllun Róberts í Tuttugu og tveim helgisöngvum 1967), en ég vil véfengja þá niðurstöðu. Laggerðin sem ég valdi við 18. Passíusálm er sú sama og þau systkinin Skarphéðinn og Valgerður sungu við 35. Passíusálm. Sjá nánar um þá laggerð við skýringar á lagboðanum „Náttúran öll og eðli manns“.

notur183538

Við niðurskrift nótnanna var stuðst við söng Skarphéðins Gíslasonar (f. 1895) á Vagnstöðum í Suðursveit og systur hans Valgerðar Gísladóttur (f. 1898). Upptökuna gerði Hallfreður Örn Eiríksson 1967. Tóntegund: ??.

 

Til þín, heilagi Herra Guð. (24. sálmur).

Þetta lag er komið af hollenska lagboðanum „Van allen Minschen affgewandt“ frá 1542. Þessi sálmur er ekki í Hólabók 1589 en er með nótum í Hólabók 1619 og í öllum Gröllurum.

Í efnisskrá Sálmasöngsbókar 1936 er við 24. Passíusálm vísað á þennan lagboða nr. 188. Það lag líkist lagboðanum í Hólabókinni og Gröllurunum en er aðeins frábrugðið. Í Sálmabók 1972 eru þrír sálmar með versum úr 24. sálmi. Í sálmi nr. 198 (2. og 3. vers) er vísað á lagboðann íSálmasöngsbókinni 1936 og við sálm nr. 378 (12. vers) er það lag prentað. Í sálmi nr. 209 (9. vers) er hins vegar vísað á lagboðann „Hver, sem að reisir hæga bygð“ sem er nr. 77 í Sálmasöngsbók 1936. Það lag er merkt sem „Íslenzkt lag“, en uppruni þess er óviss. Það birtist fyrst á prenti í handritinu Hymnodia Sacra frá 1742, en Pétur Guðjónsson breytti því í uppskrift sinni fyrir Weyse handritið 1840.  Í Sálmabók 1997 er lagið úr Sálmasöngsbókinni 1936 prentað við sálmana nr. 198 og 378, þó með þeim breytingum að upphafsnótur 1., 3. og 5. hendinga eru lengdar um helming. Þetta er gert til þess að gefa laginu yfirbragð „rytmískrar gerðar“ en er frekar hvimleitt í söng. Við sálm nr. 198 er einnig vísað til lagsins við sálm nr. 209, en það er lagið „Hver, sem að reisir hæga bygð“ eins og tilvitnunin í Sálmabók 1972 vísaði til um. Við sálm 209 er einnig vísað til lagsins við sálm nr. 198. Ég tel að betra hefði verið að samræma lögin við þennan Passíusálm og hafa það lag sem líkist upprunalegum lagboða Hallgríms Péturssonar við þá sálma sem byggja á erindum úr honum.

Laggerð þeirra Skarphéðins og Valgerðar er mjög langt frá lagboðanum sem Hallgrímur gefur upp og varla hægt að sjá líkindi við hann. Tóntegundin er mjög sérstök, en hún er lókritísk, eða sammarka dúrtóntegund frá 7. skalatóni. Laggerð Bjarna Þorsteinssonar í bókinni Íslenzk þjóðlög(s. 744) er að formi nokkuð lík laggerð systkynanna en er í frygískri tóntegund. Munurinn er sá að 5. skalatónn er lækkaður hjá þeim systkinum, þ.e. minnkuð fimmund frá grunntóni, en er hrein fimmund í laggerð Bjarna.

notur2441

Við niðurskrift nótnanna var stuðst við söng Skarphéðins Gíslasonar (f. 1895) á Vagnstöðum í Suðursveit og systur hans Valgerðar Gísladóttur (f. 1898). Upptökuna gerði Hallfreður Örn Eiríksson 1967. Tóntegund: Lókritísk.

 

Tunga mín af hjarta hljóði. (30. og 48. Passíusálmur).

Þetta lag er upprunalega latneskur hymni „Pangue Lingua“ frá 1525, en þýski lagboðinn er „Mein Zung erkling und frölich sing“. Það er í báðum Hólabókum 1589 og 1619 og í öllum útgáfum Grallarans nema 1. útgáfu.

Í efnisskrá Sálmasöngsbókar 1936 er við 30. og 48. Passíusálm vísað á þennan lagboða nr. 189. Það er allt annað lag, sem upprunalega finnst í handriti frá 1768 með heitinu „Tantum ergo sacramentum“, en það er vers úr hymnanum „Pangue Lingua“. Í Sálmabók 1972 er í sálmi nr. 396 (30. Passíusálmur erindi 10 og 11), sálmi nr. 443 (30. Passíusálmur erindi 14) og í sálmi nr. 326 (48. Passíusálmur erindi 15, 16, 17, 18 og 19) vísað á þennan lagboða. Í Sálmabók 1997 er prentað lagið nr. 189 úr Sálmasöngsbók 1936 við sálma nr. 396, 443 og 326.

Laggerð Tómasar Þórðarsonar er greinilega komin af frumgerð lagboðans en er all breytt. Laggerð Bjarna Þorsteinssonar í bókinni Íslenzk þjóðlög frá 1906-09 við 30. Passíusálm (s. 749) er í þrískiptum takti, löng-stutt. Lagið líkist nokkuð frumgerð lagsins. Bjarni gefur upp annað lag við 48. Passíusálm (s. 761) og vísar í lagboðann „Upp á fjallið Jesús vendi“, og hann segir: „.. optast mun 30. sálmurinn og þessi sálmur hafa verið sungnir með þessu lagi, en ekki með laginu „Tunga mín af hjarta hljóði#147;.#147;

 

notur3048

Við niðurskrift nótnanna var stuðst við söng Tómasar Þórðarsonar (f. 1886). Upptökuna gerði Þórður Tómasson 1969. Tóntegund: Moll.

 

 

Þá linnir hér mín líkamsvist (46. sálmur).

Tilvitnun Hallgríms er „Þá linnir hér mín líkamsvist “, en það á óefað við um lagboðann sem annars heitir „Þá linnir þessi líkamsvist“, en allar upplýsingar miðast við það. Þetta lag er komið af latnskum hymna, „Cum mortis hora me vocat“, sem fyrst kom út á prenti 1562 en er líklega eldri. Nafn lagboðans á þýsku er „Wenn mein Stundlein vorhanden ist“ Þetta lag með sálminum „Þá linnir þessi líkamsvist“ er í báðum Hólabókum 1589 og 1619 en það kemur ekki inn í Grallara fyrr en í 6. útgáfu.

Í efnisyfirliti í Sálmasöngsbók 1936 er fyrir 46. Passíusálm vísað á lagboðann „Til þín, heilagi herra guð“ nr. 188, en það er lagboði 24. Passíusálms. Engin erindi eru úr 46. Passíusálmi í Sálmabók 1972.

Laggerð Valgerðar Gísladóttur er greinilega komin af lagboðanum „Þá linnir þessi líkamsvist“ eins og hann er í Hólabókum 1589 og 1619. Þar er lagið í lydískri tóntegund en hún syngur lagið í þessari sérstöku lókritísku tóntegund, sammarka dúrtóntegund á 7. skalatóni. Laggerð Bjarna Þorsteinssonar í bókinni Íslenzk þjóðlög (s. 759-60) er líka mjög skyld upprunalegum lagboða og er líkari honum en laggerð Valgerðar. Hún er í lydískri tóntegund eins og frumgerðin en meira skreytt, frávik í laggerð benda til áhrifa frá tvísöng.

Við niðurskrift nótnanna var stuðst við söng Valgerðar Gísladóttur (f. 1898) á Vagnstöðum í Suðursveit. Upptökuna gerði Hallfreður Örn Eiríksson 1964. Tóntegund: Lókritísk.

 

Texti og nótur:  ©Smári Ólason 1998-2001.