Margrét Eggertsdóttir
Varðveisla verka sr. Hallgríms Péturssonar
Eiginhandarrit Hallgríms Péturssonar eru nú sárafá varðveitt en talið er að hann hafi sjálfur skrifað upp, eða látið skrifa, alla sálma sína og lengri kvæði. Til eru heilu kvæðabækurnar sem skáld hafa ritað eigin hendi, t.d sr. Bjarni Gissurarson í Þingmúla (1621-1712), eða þá að varðveist hafa afrit af eiginhandarritum eins og handrit að kvæðabókum sr. Ólafs Jónssonar á Söndum (1560-1627). Það er því nokkuð einkennilegt að ekkert slíkt skuli hafi varðveist af kveðskap Hallgríms.
Því hefur verið slegið fram að Árni Magnússon kunni að hafa safnað handritum Hallgríms og þau brunnið í Kaupmannahöfn 1728 en fyrir því eru þó engar heimildir. Hins vegar er vitað að bruni varð í Saurbæ árið 1662, þá brann bær Hallgríms til kaldra kola, og kynni það meðal annars að skýra þetta mál. Greinilegt er af orðum Hálfdanar Einarssonar á síðari hluta átjándu aldar að á hans dögum er lítið sem ekkert varðveitt með hendi Hallgríms. Einu eiginhandarritin að verkum sr. Hallgríms sem varðveist hafa eru annars vegar handrit í Landsbókasafni (JS 337 4to) þar sem eru Passíusálmarnir og að auki ljóðmælin Allt eins og blómstrið eina og Allt heimsins glysið, fordild fríð; og hins vegar handrit í British Library í London (BL Add 11.193) með skýringum Hallgríms við dróttkvæðar vísur í Ólafs sögu Tryggvasonar í Flateyjarbók en þær skýringar gerði Hallgrímur að beiðni Brynjólfs biskups Sveinssonar.
Eyjólfur, sonur sr. Hallgríms, mun hafa safnað allmiklu af kveðskap föður síns saman í kver. Niðjar Hallgríms áttu kverið en síðar komst það í eigu Páls Vídalíns. Í rithöfundatali sínu, Recensus poetarum et scriptorum, þar sem meðal annars er fjallað um Hallgrím Pétursson, segir Páll: „Ég hef fengið hjá sonarsonum hans kver í átta blaða broti, skaddað og illa farið af margs konar fúa, en í því höfðu verið bæði þessi sálmur og ýmislegt annað, bæði sálmar og vísur Hallgríms; þetta kver sögðu þeir að væri með eigin hendi ekki Hallgríms sjálfs, heldur Eyjólfs sonar hans. En þar sem ekki var hægt að varðveita þetta kver vegna fúa, lét ég skrifara mína skrifa það vandlega upp og á það enn, að vísu spillt af mörgum eyðum þar sem bókarslitrið varð ekki lesið“. Því miður mun kverið sem hér var lýst og afrit Páls nú hvort tveggja vera glatað.
Hins vegar eru ákveðin handrit sem ætla má að standi eiginhandarritunum nær er önnur. Eitt þeirra er talið vera skrifað upp eftir einu af eiginhandritum Hallgríms að Passíusálmunum, því sem hann tileinkaði og sendi mágkonunum, Helgu Árnadóttur í Hítardal, konu sr. Þórðar Jónssonar og Kristínu Jónsdóttur, konu Sigurðar lögmanns Jónssonar í Einarsnesi, enda eru ávarpsorð Hallgríms til þeirra varðveitt í þessu handriti, dagsett 5. maí 1660. Auk þess er þar formáli séra Jóns á Melum að Passíusálmunum. Annað handrit má nefna sem allt bendir til að standi nálægt upphaflegri gerð. Það er skrifað af Guðmundi Runólfssyni eins og fram kemur á forsíðu; fyrri hlutinn á Stað í Grindavík 1730 en seinni hlutinn í Vestmannaeyjum 1736 (JS 208 8vo). Passíusálmarnir eru ekki í þessu handriti en ýmsir aðrir sálmar Hallgríms og kvæði. Hallgrími er eignað allt sem er í fyrri hluta handritsins og niðurröðun efnisins í þessu handriti er mjög svipuð niðurröðun efnisins í nokkrum öðrum handritum sem varðveita kveðskap Hallgríms, sem og í fyrstu útgáfu Hallgrímskvers. Þetta hvort tveggja gæti bent til þess að hér væru leifar af kvæðasafni. Auk þess er þetta handrit eitt af fáum sem örugglega er eldra en prentaðar útgáfur af kvæðum og sálmum sr. Hallgríms.Samt sem áður er málið ekki svo einfalt að hægt sé að birta öll ljóðmæli Hallgríms sem varðveitt eru í þessu ágæta handriti eins og þau eru þar, heldur verður að meta hvern texta út af fyrir sig, t.d. er Flærðarsenna þarna varðveitt en reyndist við samanburð handrita hafa betri og upprunalegri texta í handriti sem er enn eldra eða frá síðari hluta sautjándu aldar og mun vera upprunnið í Borgarfirði.
Sá sem fæst við að gefa kveðskap sr. Hallgríms út – annan en Passíusálmana – verður að velja milli uppskrifta sem eru ekki komnar beint frá höfundinum og hljóta því að hafa brenglast meira eða minna. Það er ekki í valdi útgefenda að endurskapa texta skáldsins eins og hann var upphaflega, hins vegar er hægt að reyna að gefa rétta mynd af varðveislu kvæðanna, velja þann texta sem trúlegt er að hafi staðið næst hinum upprunalega og gefa lesendum kost á að kynna sér hinar ýmsu gerðir kvæðanna og hvernig þær tengjast. Alkunn er þessi vísa sr. Hallgríms sem hann á að hafa ort þegar hann sá uppskrift af Króka-Refs rímum:
Séð hef ég áður rímur Refs
ritaðar mínum penna,
en nú er mér orðið allt til efs
hvort eigi mér að kenna.
Einnig kemur fram í formála að Passíusálmunum ósk um að menn færi ekki úr lagi það sem hann hefur ort sem ber auðvitað vitni um ótta við að svo fari: „Enn þess er eg aff gudhræddum monnum oskande ad eige vr lage fære, nie mijnum ordum breite …“ (JS 337 4to, 1v).
Þau handrit sem standa skáldinu nálægt í tíma eða með öðrum orðum eru skrifuð á 17. öld eru ekki mörg, en einkennilegt er að texti þeirra er oft ekki síður brenglaður en texti annarra handrita. Á þetta ekki síst við um hið merka kvæði hans, Aldarhátt. Þetta kvæði virðist hafa notið vinsælda ef marka má hvað það er varðveitt í mörgum uppskriftum en hefur einnig þótt torskilið eins og sjá má af því að skýringar voru samdar við það.
Það er ljóst að kvæði og sálmar sem skrifuð voru upp í handritum á sautjándu og átjándu öld hafa nær undantekningarlaust tekið miklum breytingum. Oft er augljóslega um mislestur að ræða en einnig er hugsanlegt að skrifarar hafi viljandi breytt ýmsu og talið það vera til bóta. Auk þess er líklegt að menn hafi kunnað þennan kveðskap utan að og skrifað hann upp eftir minni. Þar við bætist að ólíkar gerðir má hugsanlega að einhverju leyti rekja til þess sem orti. Vitað er að Hallgrímur Pétursson skrifaði Passíusálmana sjálfur upp nokkrum sinnum og sendi vinum sínum og að nokkur munur var sums staðar á sálmunum í þessum handritum. Á sama hátt er vel hugsanlegt að tvær eða jafnvel fleiri mismunandi gerðir kvæðis eða sálms megi rekja til skáldsins sjálfs.
Það er mikilvægt að átta sig á því að sálmar og kvæði voru skrifuð upp til notkunar. Fólk söng sálmana og fór með kvæðin sér til gleði og ánægju, til huggunar í raunum og til að skilja betur gang veraldarinnar. Handrit voru skrifuð handa ákveðnu fólki og síðan gengu þau milli manna, oft í sömu fjölskyldunni, kynslóð eftir kynslóð. Ef skrifari var sjálfur hagmæltur eða skáld skrifaði hann eigin skáldskap upp innan um kvæði annarra. Oft er það tilviljun hvort höfundar er getið enda munu menn ekki hafa litið á það sem aðalatriði, allra síst þegar um sálma var að ræða. Áður hefur þess verið getið að skýringar voru samdar við kvæði Hallgríms, Aldarhátt. Sr. Eyjólfur Jónsson lærði á Völlum í Svarfaðardal er annar þeirra sem vitað er að sömdu skýringar við kvæðið. Hann orti líka vísu um það og hún fylgir kvæðinu í nokkrum handritum. Hún hljóðar svo:
Aldarhátt ég enda hér,
óðarþátt sem bestur er,
fróðleiksmátt sá frægstan tér
furðu dátt í sjálfum sér.
Þannig má stundum finna í handritum vísur eða athugasemdir sem eru eins konar svar eða viðbrögð lesenda við því sem þar er skrifað upp. Það er einnig ljóst að þótt kvæði eða sálmur kæmi á prent breytti það engu um að menn héldu áfram að skrifa textann upp eftir handriti án tillits til þess hvernig hann var prentaður; hinn prentaði texti var ekki endilega talinn réttmætari eða uppskrifarar höfðu alls ekki prentaða bók handbæra. Hitt er líka til að texti í handriti sé einfaldlega nákvæm uppskrift á prentuðum texta og hafi þannig ekkert textagildi.
Oft var það svo að tilgangurinn helgaði meðalið þegar kvæðin voru skrifuð upp. Sem dæmi má nefna nokkur erindi eftir sr. Hallgrím sem hafa upphafið Þeir undanförnu öðrum benda og hafa í tveimur handritum fyrirsögnina „Að maður athugi jafnan sinn dauða“ og virðast því vera hugleiðing um dauðann. Hins vegar eru nokkur erindi úr sálminum varðveitt með erindinu Almáttugur Guð þín gæti sem er lukkuósk sr. Hallgríms til Sigurðar Jónssonar þegar hann varð lögmaður sunnan og austan. Í enn öðru handriti (Lbs 847 4to) mynda nokkur þessara erinda upphafið að erfiljóði sr. Hallgríms um Árna lögmann Oddsson, en þau eru ekki í öðrum handritum að því kvæði, svo vitað sé. Ekki er gott að segja hvort skáldið hafi sjálft notað erindin í fleiri en einum tilgangi eða hvort skrifarar bera ábyrgð á mismunandi hlutverki erindanna.
Metnaðarfyllsta útgáfan sem til er á kvæðum og sálmum sr. Hallgríms Péturssonar er útgáfa Gríms Thomsens: Sálmar og kvæði I-II (1887-90). Í fyrra bindinu eru sálmaflokkar skáldsins (Samúelssálmar, Passíusálmarnir og Andleg kveðja) en í síðara bindinu eru stakir sálmar og veraldleg kvæði. Í formála segir Grímur að til sé efni í þriðja bindið, þ.e. Rímur af Króka-Ref, Rímur af Lykla-Pétri og Magelónu, Rímur af Flóres og Leó (brot), Diarium, Umþenkingar en það eru íhugunarrit sem Hallgrímur samdi í lausu máli, kvöld- og morgunbænir o.fl. Þriðja bindið kom aldrei út þannig að þetta varð ekki heildarútgáfa eins og til stóð. Löngu seinna voru rímur Hallgríms gefnar út í ritröð Rímnafélagsins; 1956 gaf Finnur Sigmundsson út Króka-Refs rímur og Rímur af Lykla-Pétri og Magelónu í einu bindi og Rímur af Flóres og Leó (eftir þá Bjarna Jónsson Borgfirðingaskáld og Hallgrím) í öðru bindi.
Útgáfa Gríms er fyrsta tilraunin til heildarútgáfu á verkum Hallgríms en auðvitað ekki fyrsta útgáfan á ljóðmælum hans. Passíusálmarnir komu út meðan hann sjálfur var enn á lífi, 1666, og tæpri öld síðar komu sálmar hans og kvæði út, fyrst á Hólum 1755 og oftsinnis eftir það og voru þessar útgáfur nefndar Hallgrímskver. Fyrsta útgáfa Hallgrímskvers kom út árið sem Hálfdan Einarsson kom til Hóla. Þar var hann skólameistari í þrjátíu ár og gaf bæði Passíusálmana og Hallgrímskver út mörgum sinnum og endurskoðaði og endurbætti jafnan útgáfurnar. Síðasta útgáfan sem hann gekk frá kom út 1773 og er hún mjög mikilvæg heimild og viðmiðun við frágang einstakra kvæða.
Það hefur lengi verið stefnt að heildarútgáfu á verkum Hallgríms á Stofnun Árna Magnússonar og megináherslan lögð á að ganga fyrst frá kvæðum hans og sálmum. Það er langbrýnast því að Passíusálmarnir eru til útgefnir eftir eiginhandarritinu og rímurnar eru til í ágætri útgáfu. Jón Samsonarson sérfræðingur á Árnastofnun ýtti úr vör undirbúningi þessarar útgáfu og lét meðal annars vinna kvæðaskrá þar sem skráð eru öll ljóðmæli eignuð Hallgrími og hvar þau eru varðveitt í handritum eða eldri prentuðum bókum. Þar sem flest ljóðmælin eru aðeins varðveitt í afritum er eins og áður segir aldrei hægt að treysta því að textinn sem valinn er til útgáfu sé nákvæmlega eins og skáldið gekk frá honum – eða réttara sagt, það er næsta víst að hann er ekki alveg eins og höfundurinn gekk frá honum. Valið á textanum sem leggja skal til grundvallar er oft mikið matsatriði. Ljóst er að í hverju einasta tilfelli verður að skoða öll handrit sem geyma kvæðið sem um er að ræða.
Annar meginvandi varðandi þessa útgáfu er að taka afstöðu til þess hvaða ljóðmæli séu réttilega eignuð Hallgrími og hver ekki. Það er ákaflega algengt að sama kvæði eða sálmur sé bæði eignað Hallgrími og ýmsum öðrum. Það er staðreynd að fræg skáld draga til sín annarra kveðskap, þeim er eignað meira en þau hafa raunverulega ort og hins vegar verða kvæði þeirra fyrir meiri breytingum en annarra, verða meiri almenningseign og erfiðara að komast að því hvernig „frumgerðin“ var. Vissulega eru ákveðnar heimildir til, t.d. um það hvað Hálfdan Einarsson taldi réttilega eignað Hallgrími og hvað ekki og sjálfsagt að taka mark á því. Hálfdan merkir sum ljóðmælin með stjörnu og skýrir það svo: „… þar Asterisci finnast hiª psalmunum, þa er þad teikn til þess, ad sum exemplaria, sem vid hønd eru, eigna þa ødrum enn sr. Hallgrijmi.“ Auk þess sleppir Hálfdan sumum ljóðum í síðari útgáfum en bætir öðrum við og er full ástæða til að hafa slíkt til viðmiðunar. Það er ein ástæða þess að við útgáfu á kveðskap sr. Hallgríms er nauðsynlegt að hafa hinar ýmsu útgáfur Hallgrímskvers frá átjándu öld til hliðsjónar.
Annað sem hlýtur að vera a.m.k. vísbending um höfund er vitnisburður handrita. Mikilvægt er að athuga vel fyrirsagnir kvæða í handritum og reyna að meta heimildagildi þeirra. En auk þess má oft greinilega sjá á fyrirsögnum, ásamt með lesbrigðum, hvernig skyldleika handrita er háttað. Það er ekki óalgengt að sama kvæðið sé eignað tveimur til þremur höfundum. Þá verður útgefandi að reyna að greina milli handrita, taka fremur mark á eldra handriti en yngra, taka e.t.v. fremur mark á einum skrifara en öðrum, en þessi aðferð er auðvitað ekki óbrigðul.
Sú útgáfa sem nú er unnið að á Árnastofnun á að vera vísindaleg útgáfa en í því felst að allar varðveittar uppskriftir hvers kvæðis eða sálms eru athugaðar áður en valinn er sá texti sem birta skal. Kvæðið er síðan skrifað upp orðrétt og stafrétt eins og það er í handritinu eða prentuðu bókinni sem fyrir valinu verður. Að því búnu er gerð skrá yfir öll frávik textans í öðrum handritum og loks er gert stemma eða ættartré handrita. Þetta er auðvitað seinleg og tímafrek vinna, einkum í þeim tilfellum þegar kvæði er varðveitt í mörgum handritum eins og til dæmis Aldarháttur sem er í rúmlega fjörutíu handritum og hefur auk þess oft verið prentaður. En það er ekki nóg með að þetta taki langan tíma, einungis fáir hafa áhuga á þeim upplýsingum sem þarna koma fram. Hins vegar er nauðsynlegt að útgáfa af þessu tagi sé til. Henni er ætlað að vera traust heimild um það hvernig kvæðin eru varðveitt og vera þannig grundvöllur undir aðrar útgáfur t.d. ætlaðar almenningi, skólafólki og fleirum, svo og þýðingar.
Það er ætlunin í þessari útgáfu að raða ljóðmælum Hallgríms saman eftir efni þar sem ómögulegt er að raða þeim eftir aldri vegna óvissu um það hvenær kvæðin voru ort. Það er þó ekki vandalaust að raða eftir efni. Það er til dæmis alveg ljóst að sú flokkun sem Grímur Thomsen hefur í útgáfu sinni er ónothæf, þar er reynt að greina milli trúarlegs og veraldlegs efnis en sú skipting gengur ekki upp eins og danski guðfræðingurinn Arne Møller benti á fyrir löngu í doktorsriti sínu um Passíusálmana frá árinu 1922. Þetta vekur ýmsar spurningar varðandi bókmenntagreinar og kvæðategundir sem Hallgrímur leggur stund á. Það er því spennandi rannsóknarefni að taka kveðskap hans til athugunar bæði út frá formi, innihaldi, myndmáli og stíl. Þá kemur ef til vill í ljós að ýmislegt sem hingað til hefur verið litið á sem sérstakt einkenni á Hallgrími og lífsviðhorfi hans eða dæmigert fyrir andlegt ástand Íslendinga á sautjándu öld á sér fyrirmyndir í evrópskri kveðskaparhefð og sýnir miklu fremur að erlendir tískustraumar í kvæðagerð, bæði trúarlegri og veraldlegri, hafa einnig náð hingað út til Íslands.
© Margrét Eggertsdóttir. Birtist upphaflega í ritinu Hallgrímsstefna. Fyrirlestrar frá ráðstefnu um Hallgrím Pétursson og verk hans (1997)