Í útvarpi

Passíusálmalestur í rúma hálfa öld

Árið 1944 var upp tekinn sá siður hjá Ríkisútvarpinu að lesa Passíusálma Hallgríms Péturssonar alla á föstunni. Frumkvæði að þessum lestri mun Magnús Jónsson prófessor og formaður útvarpsráðs hafa átt, en hann vann á þessum tíma að hinu viðamikla verki sínu Hallgrímur Pétursson, ævi og starf. Fyrstur til að lesa sálmana var Sigurbjörn Einarsson, dósent við guðfræðideild háskólans og síðar biskup Íslands. Svo segir í ævisögu hans, sem Sigurður A. Magnússon skráði:

Sigurbjörn varð að fara á hverju kvöldi um tíuleytið niðrí Landsímahús við Austurvöll og lesa sálm dagsins. Þá var ekki um annað að ræða en beinar útsendingar. […] Vissulega var rennt blint í sjóinn með, hvaða undirtektir þetta nýmæli fengi, en svo fór að viðbrögð almennings urðu ákaflega jákvæð. Telur Sigurbjörn sig varla hafa fengið aðrar eins þakkir fyrir neitt sem hann hefur gert um ævina einsog þennan lestur. Útvarpið skipti miklu máli á þeim árum og menn hlustuðu vel, líka á Passíusálmana, enda sat heimilisguðrækni fyrri tíðar í fjölda manns og lesturinn vakti minningar um góðan sið sem lent hafði í glatkistunni.

Árið 1945 las séra Friðrik Hallgrímsson, fyrrum útvarpsráðsmaður, sálmana en 1946 las Sigurbjörn þá í annað sinn og þriðja sinn 1950. Hefur enginn lesið sálmana svo oft í útvarpi.

Framan af var algengt að prestlærðir menn læsu sálmana en á því eru þó ýmsar undantekningar, einkum hin síðari ár. Fræðimennirnir Jón Helgason, Sigurður Nordal, Óskar Halldórsson og Sverrir Kristjánsson lásu til dæmis sálmana með stuttu millibili á árunum 1969-1975 og árið 1985 las Halldór Kiljan Laxness sálmana.  Valbjörg Kristmundsdóttir var fyrst kvenna til að lesa sálmana í útvarp árið 1974. Fyrsti leikarinn sem tók að sér þetta verkefni var Þorsteinn Ö. Stephensen árið 1976. Dóttir hans, Ingibjörg Stephensen, var önnur konan sem las sálmana árið 1981 en þess má geta að Svanhildur Óskarsdóttir, sem las sálmana 1998, er dóttir Óskars Halldórssonar sem las þá árið 1972. Árið 2000 las biskup Íslands, Herra Karl Sigurbjörnsson sálmana og var það í fyrsta skipti sem starfandi biskup las þá