Formáli

HISTORÍA

pínunnar og dauðans drottins vors Jesú Kristí með hennar sérlegustu lærdóms-, áminningar- og huggunargreinum ásamt bænum og þakkargjörðum.
Í sálmum og söngvísum með ýmsum tónum samsett og skrifuð anno 1659.
Hallgrímur Pétursson prestur


1. Korintubréf 11
Þér skuluð kunngjöra dauða drottins þangað til hann kemur.

Was trauerst du doch?
Gott lebet noch?

Guðhræddum lesara heilsun

Það verður dýrast sem lengi hefur geymt verið og gefur tvöfaldan ávöxt í hentugan tíma fram borið, sagði Markús Varro. Umþenking guðrækileg herrans Jesú pínu og dauða er vissulega dýrmæt og hver sig langvaranlega gefur til þeirrar umþenkingar og ber jafnan Jesú Kristí píslarminning í sínu hjarta sá geymir hinn dýrasta hlut. Og með því ég hefi hennar langvaranlega íhugun mér í brjósti geymt, eftir þeirri náð sem minn góði Guð hefur mér af náð sinni gefið, þá ber ég hana nú loksins fram opinberlega í þessum sálmum fyrir öll upp á Jesúm lítandi augu og Jesúm elskandi hjörtu svo mikið sem ég kann og ég get í þau fáorðu sálmavers innbundið. Þeim sem herrans Jesú pínu jafnan elska mun það ekki þykja í ótíma gjört, sérdeilis nær þeir rannsaka þessa yfirstandandi eymdanna öld á hverri réttir Jesú pínu elskendur meir sorga en gleðjast og sofandi hirðuleysingjar (sem of margir finnast, því verr) meir fagna en sorga. Hver ávöxtur hér af færist befala ég Guði. En þess er ég af guðhræddum mönnum óskandi að eigi úr lagi færi né mínum orðum breyti hver þeir sjá orði drottins og kristilegri meiningu eigi á móti. Þeir sem betur kunna munu betur gjöra. Herrann Jesús elski þá alla sem hans heilaga kvöl og pínu guðrækilega elska og iðka hennar minning. Vale pie lector.

Hallgrímur Pétursson prestur

Texti úr útgáfu Landsbókasafns Íslands – Háskólabókasafns (1996)
Orðskýringar:
befala: fela
Markús Varro:  Rómverskur fræðimaður og skáld (116-27 f.Kr.).  Skrifaði fræðirit um margvísleg efni.
Vale pie lector: Sæll, guðhræddi lesandi.
Was trauerst du doch? / Gott lebet noch?: Hvað hryggist þú? Guð lifir enn nú? 
Tilvitnun Hallgríms  í Paul Gerhardt (1607-1676).