Eins og kunnugt er hefur pína og dauði Jesú Krists um aldir verið uppspretta ljóða og tónlistar í Evrópu. Passíusálmar Hallgríms Péturssonar eru grein á þeim stóra meiði. Það var gömul og sterk hefð fyrir því að hugleiða efni píslarsögunnar, einnig á kaþólskum tíma. Á íslensku var til dæmis ort helgikvæði á 13. öld sem nefnist Líknarbraut og er íhugun um pínu og dauða Krists. Sams konar íhugun er að hluta til í frægasta helgikvæði Íslendinga frá kaþólskum tíma, Lilju eftir Eystein munk Ásgrímsson. Eftir siðskiptin urðu enn fleiri til að yrkja og skrifa um þetta efni enda er krossdauði Jesú mjög miðlægt atriði í evangelískri guðfræði. Í kjölfar siðskiptanna urðu menningarleg tengsl á Íslandi mjög sterk við Danmörku og Þýskaland, þaðan barst fjöldi trúarlegra og fræðilegra rita og bókmenntir og menningarlíf mótaðist mjög af áhrifum þaðan. Á íslensku voru meðal annars þýdd rit eftir ýmsa þýska guðfræðinga, svo sem Jóhann Gerhard, Jóhann Arndt, Martin Moller og fleiri og höfðu rit þeirra mikil áhrif á íslenskan kveðskap. Á þessum tíma blómstraði sálmakveðskapur á íslensku meira en nokkru sinni.
Passíusálmar Hallgríms Péturssonar hafa samt sem áður algjöra sérstöðu að því leyti að þeir hafa fylgt íslensku þjóðinni gegnum aldir eins og áður sagði. Varla þarf að taka fram að annar kveðskapur af þessu tagi er löngu fallinn í gleymsku. Það er erfitt að svara því hvað gerir Passíusálma Hallgríms Péturssonar svo sérstaka en óhætt er að fullyrða að þeir eru meistaraverk bæði frá listrænu og trúarlegu sjónarmiði. Þeir eru fimmtíu talsins og hver og einn ætlaður til flutnings á virkum degi á níuvikna föstunni eða þannig að lestri þeirra sé lokið í dymbilviku. Titill þeirra er: „Historia pínunnar og dauðans Drottins vors Jesú Kristí, með hennar sérlegustu lærdóms-, áminningar- og huggunargreinum, ásamt bænum og þakkargjörðum, í sálmum og söngvísum með ýmsum tónum samsett og skrifuð anno 1659.“ Sýnt hefur verið fram á að bygging hvers sálms er í samræmi við þessa fyrirsögn. Þannig skiptist hver sálmur í historiu, sem er ákveðinn hluti texta píslarsögunnar og síðan skiptist útleggingin í útleggingu til lærdóms, áminningar og huggunar. Þessi fjórfalda skipting er í samræmi við ferns konar útleggingu textans sem á sér langa hefð í kristnum fræðum, hin sögulega (historiska) merking, hin táknræna (allegoriska), hin siðferðilega (móralska) og sú sem stefnt er að og veitir huggun (hin anagógiska).
Hver Passíusálmur er ortur undir sérstökum bragarhætti og í upphafi hvers sálms er tekið fram undir hvaða lagi hann eigi að syngja. Sálmarnir eru ortir undir lagboðum sem fólk þekkti. Í hverjum sálmi er endarím og stuðlasetning en stuðlasetning hefur tíðkast í íslenskum kveðskap allt fram á þessa öld. Að öðru leyti er ytra form sálmanna einfalt, skáldið notar ekki innrím eins og víða er algengt í öðrum kveðskap þess, hann notar ekki forna skáldamálið né annað flókið myndmál, allt er skýrt og auðskilið. Engu að síður má víða sjá að höfundurinn þekkir og notar klassísk stílbrögð og hefur meginreglur mælskufræðinnar að leiðarljósi, til dæmis í upphafsversinu sem er dæmigert invocatio, ákall til alls líkamans að taka þátt í hugleiðslunni.
Meginhugsunin í hugleiðslu Hallgríms er að allt sem Jesús leið og þoldi var gert af kærleika til mannanna, í þeim tilgangi að vera þeim til björgunar, þannig að hver og einn sem trúir á hann er laus frá refsingu og dómi. Dæmi um þessa hugsun er erindið þar sem segir: „Yfirgefinn kvað son Guðs sig / þá særði hann kvölin megna / yfirgefur því aldrei mig / eilífur Guð hans vegna“. Í hverjum sálmi er eins og skáldið hafi valið ákveðin orð eða hugtök til að hugleiða og útleggja á ýmsan hátt, í 8. sálmi eru það t.d. hugtökin myrkur, vald og tími. Í sálminum er meðal annars fjallað um þann tíma sem Jesús þurfti að þjást, það var afmarkaður tími og á sama hátt er þjáning hvers manns innan ákveðins tíma, svo og sá tími sem hverjum manni er gefinn, umfram allt er lögð áhersla á að Guð er sá sem ríkir yfir tímanum. Jesús var ofurseldur mannlegu valdi en er þó sá sem valdið hefur, á sama hátt hafa valdsmenn þessa heims takmarkað vald. Síðan tengir skáldið saman vald og myrkur og segir valdstjórnendum til syndanna, varar þá við að beita órétti í skjóli myrkurs og minnir síðan í næsta erindi á að í myrkri dauðans muni enginn sjá muninn á höfðingjum og alþýðufólki. Um leið áminnir hann alþýðuna að treysta ekki á hylli höfðingjanna vegna þess að vald þeirra er tengt myrkrinu. Síðan kemur bæn fyrir yfirvöldunum þar sem Jesús er ávarpaður sem lífsins ljós, augljós andstæða við myrkrið. Í lok sálmsins er Jesú þakkað fyrir að hafa gengist undir vald myrkursins og komið því til leiðar að ljóðmælandi og um leið hver sem trúir á Krist verði aldrei ofurseldur ystu myrkrum kvalanna.
Í 44. sálminum leikur skáldið hins vegar með hugtökin faðir og hönd. Þar er dregin upp mynd af Guði sem hinum „góðlynda“ föður sem hefur meðaumkun með sjúka barninu sínu. Þess vegna er best að fá að halda í hönd hans og láta hann leiða sig; í dauða mun hinn trúaði mæta miskunn milli föðurhanda Guðs. Í þessum sálmi er einna þekktast versið: „Vertu, Guð faðir, faðir minn / í frelsarans Jesú nafni / hönd þín leiði mig út og inn / svo allri synd ég hafni.“ Þetta vers hefur lengi tíðkast að fara með bæði kvölds og morgna.
Í Passíusálmum Hallgríms Péturssonar má greina heimspeki og almenn sannindi hins lífsreynda manns sem kynnst hefur heiminum og hefur einnig öðlast djúpan skilning á mannlegu eðli enda eru sumar hendingar í sálmunum orðnar eins og málshættir meðal Íslendinga, setningar sem oft er vitnað til, t.d. þessi: „Oft má af máli þekkja / manninn hver helst hann er“ (11,15) og einnig: „hvað höfðingjarnir hafast að / hinir meina sér leyfist það“ (22,10). Í sálmunum höfðar Hallgrímur á sérstakan hátt til samvisku hvers manns, hvort sem hann er af háum stigum eða lágum. Sjálfur hafði Hallgrímur átt misjafna ævi, hafði bæði kynnst því að vera undir verndarvæng háttsettra en hafði einnig deilt kjörum með bláfátækum erfiðismönnum.
Það er engin tilviljun að 25. sálmurinn myndar augljósan hápunkt Passíusálmanna; greinilegt er að þar í miðju verkinu verður ákveðið ris. Þar segir frá því þegar Jesús er leiddur út og Pílatus leggur til að hann verði náðaður en mannfjöldinn heimtar að hann verði krossfestur. Skáldið dregur fram andstæðurnar milli þyrnikórónu Krists og dýrðarkórónunnar sem hinn endurleysti hlýtur á himnum, milli purpurakápu Krists og skikkju réttlætisins sem hinn trúaði er sveipaður í. Í samræmi við meginhugsun verksins sem byggð er á kjarnanum í evangelískri guðfræði hefur mannkynið allt hlotið að gjöf það sem Jesús hlaut ekki; þegar hann er leiddur út er mannkyni boðið inn – til Guðs. Í þessum sálmi er eitt fallegasta versið í Passíusálmunum: „Út geng ég ætíð síðan / í trausti frelsarans / undir blæ himins blíðan / blessaður víst til sanns …“. Hinn kunni prófessor í norrænum bókmenntum, Sigurður Nordal (1886-1974), hefur tengt þetta vers við gamla sögn þess efnis að Hallgrímur hafi jafnan ort nokkur vers úr Passíusálmunum snemma á morgnana undir berum himni á gangi fyrir utan bæinn í Saurbæ við Hvalfjarðarströnd en þar er mikið útsýni yfir fjörðinn og fögur fjallasýn. Í 25. sálminum leggur Hallgrímur einnig út af orðum Pílatusar um Jesúm: „Sjáið manninn“. Hann hugsar sér að englarnir segi hver við annan þegar hann sjálfur kemur til himna: „Sjáið nú þennan mann / sem alls kyns eymd réð beygja / áður í heimsins rann / oft var þá hrelldur hann …“. En englarnir sjá ekki aðeins vesöld hans heldur dást einnig að því að hann hefur unnið sælan sigur og skáldið mun svara með fögrum tón: „Lof sé mínum lausnara“. Síðan lýkur sálminum á þeim hápunkti sem er lofsöngur til Krists þar sem beitt er í senn anafóru (endurtekningu í upphafi línu) og polyptoton (endurtekningu sama orðs í mismunandi beygingarmyndum): „Son Guðs ertu með sanni / sonur Guðs, Jesú minn / son Guðs syndugum manni / sonar arf skenktir þinn, / son Guðs einn eingetinn, / syni Guðs syngi glaður / sérhver lifandi maður / heiður í hvert eitt sinn.“
Hér hefur komið fram hve nátengdur Hallgrímur Pétursson og kveðskapur hans er sögu og menningu Íslendinga. Því miður hafa tengsl hans við evrópskan kveðskap ekki verið rannsökuð nægilega vel. Það liggur þó í augum uppi að kveðskapur hans er af sama toga og helstu barokkskálda í Norður-Evrópu á sautjándu öld, bæði hvað varðar lífsskoðun og yrkisefni. Íslendingar höfðu nokkra sérstöðu á þessum tíma að því leyti að þar hafði tíðkast um aldir að yrkja á móðurmálinu. Annars staðar í Evrópu voru skáld að losa sig undan hinum gífurlegu áhrifum latnesks kveðskapar með því að hefja kveðskap á móðurmálinu til vegs og virðingar þótt sá kveðskapur væri vissulega byggður á sömu reglum og lögmálum og giltu um klassískan kveðskap. Fullyrða má að kveðskapur Hallgríms Péturssonar beri flest einkenni barokktímabilsins en sérstaða hans er einkum fólgin í því hvernig þar rennur saman íslensk og evrópsk menningarhefð.