Handrit

Ögmundur Helgason

Eiginhandarrit Hallgríms Péturssonar að Passíusálmunum

Eiginhandarrit séra Hallgríms Péturssonar að Passíusálmunum, JS 337 4to, sem Landsbókasafn Íslands – Háskólabókasafn gaf út ljósprentað árið 1996, er 18.4314.5 sm að stærð, 12 arkir, 4 blöð hver örk, samtals 48 blöð án tölusetningar. Á hverri fullritaðri síðu eru allt að 30 línur í samfelldum texta. Blað 1r er titilsíða sálmanna, og kemur þar fram að þeir séu ortir og skrifaðir árið 1659, á 1v eru formálsorð skáldsins, á 2r-46v er sálmatextinn, en þar fyrir aftan á 47r-v sálmurinn Um dauðans óvissan tíma og á 47v-48v Um fallvalt heimsins lán.

Haft er fyrir satt að þetta handrit Passíusálmanna hafi Hallgrímur sent Ragnheiði Brynjólfsdóttur Sveinssonar, biskups í Skálholti, í maímánuði árið 1661. Var Brynjólfur biskup sérstakur velgjörðamaður Hallgríms, eins og víða má lesa um í samtímaheimildum.

Ekki er beinlínis vitað hvers vegna Hallgrímur sendi Ragnheiði sálma sína, en hins vegar er kunnugt að hann sendi einnig sálmana fjórum öðrum konum, eiginkonum og dætrum vina sinna. Verður helst getum að því leitt að þessum konum hafi hann treyst fremur öðrum til að meta verk sitt að verðleikum. Einnig hefur Hallgrímur sent sálmana Jóni Jónssyni prófasti á Melum í Melasveit, auk þess sem hann hefur geymt hjá sér eigið eintak. Öll þessi eiginhandarrit eru nú glötuð nema JS 337 4to sem eitt hefur varðveist til þessa dags.

Tileinkunarorð Hallgríms til Ragnheiðar, sem hefðu átt að vera í handriti hennar, eru þó ekki til með hans hendi. Þau er að finna í handritinu JS 272 4to, í eftirriti Hálfdanar Einarssonar skólameistara á Hólum og eru þannig: „Erusamre, gudhræddre og velsidugre | jomfru Ragnheide Bryniolfs dotter | ad Skälhollte, sender þetta psal | makver til eins gods kyn | ningar merkis j Christi | kiærleika | Hallgrimur Petursson pr(estur ) | Saurbæ ä Hval fiardarstrónd | Anno 1661 in majo. | Mikill er munur heims og himins | sa ma heimi neita, sem himins vill leita.

Í ritverki Magnúsar Jónssonar um Hallgrím Pétursson er fjallað um JS 337 4to og komist að þeirri niðurstöðu að það handrit sé hið sama og Hallgrímur sendi Ragnheiði þótt þar vanti fyrrgreinda tileinkun. Magnús bendir á að í JS 272 4to taki Hálfdan Einarsson einnig fram að hjá Hallgrími hafi verið formáli og meðmælaskrif Jóns Jónssonar prófasts á Melum, sem hann fékk til að rita um sálmana, en sé nú ekki lengur á sínum stað, fremur en tileinkunin, heldur í þessu sama afriti. Kemur hann þessu illa heim og saman, en lýkur þannig orðum sínum að sé um að ræða sama handritið þá ætti þetta efni að hafa verið á sérstöku blaði eða blöðum og síðan orðið viðskila sem ekki sé ómögulegt. Hér verður hin sama niðurstaða að sennilega vanti nú eina örk framan af handritinu þar sem verið hafi umræddur texti. Hefur þessi örk þá verið numin á brott eftir að Hálfdan ritaði hjá sér það sem á henni stóð, og er ekki ólíklegt að það hafi gerst þegar handritið var fært í band einhvern tíma á fyrri hluta 19. aldar. Minna má á að á þeim tíma var handritið í fórum þekkts bókbindara eins og kemur fram hér á eftir.

Páll Eggert Ólason hefur rakið sögu Passíusálmahandritsins af fyllstri kostgæfni, allt frá því að Ragnheiður Brynjólfsdóttir eignaðist það og þar til þessi dýrgripur komst í vörslu Landsbókasafns sem þjóðareign.  Eftir dauða Ragnheiðar og síðar Brynjólfs biskups eignaðist handritið Sigríður Halldórsdóttir, mágkona og erfingi biskupsins, er var kona séra Torfa Jónssonar í Gaulverjabæ, þá sonur þeirra, séra Jón á Breiðabólstað í Fljótshlíð, því næst sonur hans, Björn á Núpi í Dýrafirði, og þar á eftir sonur hans, Jón í Innri-Hjarðardal í sömu sveit. Jón gaf síðan handritið Hálfdani Einarssyni skólameistara á Hólum, sem lét sér mjög annt um kveðskapargeymd séra Hallgríms og rannsakaði og gaf út sálma hans og veraldleg kvæði að ströngustu kröfum síns tíma. Eftir andlát Hálfdanar komst handritið í eigu Ragnheiðar Ólafsdóttur, konu Jónasar Scheving sýslumanns á Leirá, fremur en Ólafs Stefánssonar stiftamtmanns, föður hennar, og síðar í hendur Jóns Jóhannessonar bókbindara í Leirárgörðum, sem seldi það Jóni Guðmundssyni ritstjóra Þjóðólfs. Þennan dýrgrip sendi Jón loks að gjöf vildarvini sínum og nafna, Jóni Sigurðssyni forseta í Kaupmannahöfn, samkvæmt bréfi sem dagsett er 28. febrúar 1855.

Árið 1877 keypti Alþingi allar bækur og handrit Jóns Sigurðssonar til handa Landsbókasafni. Hann hélt þó gögnum sínum til æviloka, 7. desember 1879, en þá voru þau send jafnskjótt sem við varð komið hingað til lands. Voru Passíusálmarnir meðal handrita og prentaðra bóka sem flutt var til landsins árið 1880, en formlega afhent Landsbókasafni með bréfi frá landshöfðingja 26. september 1881. Handritum Jóns hefur alla tíð verið haldið aðgreindum frá öðru handritaefni. Eru þau auðkennd með fangamarki hans, JS. Eins og fram hefur komið ber Passíusálmahandritið númerið 337 4to í safninu.

Við gagngera viðgerð á haustdögum 1995 var Passíusálmahandritið tekið úr bandi sem það hafði verið í frá því á 19. öld, svokölluðu hálfbandi, skinn á kili en pappír á spjöldum. Þegar handritið var bundið hefur samkvæmt venju þótt nauðsynlegt að jafna arkir á jöðrum, en er beitt var skurðhnífnum hefur sneiðst brot af staf eða jafnvel heill stafur á stöku stað, þar sem ritað hafði verið utarlega á spássíu. Þá hefur bókin einnig verið lituð blá í sniðum.

Frá sama tíma gætu einnig verið styrktarræmur sem víða voru límdar á rifnar eða skaddaðar blaðrendur og einnig á nokkrum stöðum inni við kjöl, svo að sums staðar hurfu versanúmer eða jaðartextar undir ræmurnar. Voru þessir álímingar fjarlægðir við viðgerðina.

Pappírinn er brúnleitur og blek ljósbrúnt. Á síðari tímum hefur á stöku stað verið skrifað ofan í upphaflega blekið og bætt við merkjum yfir stafi á tveimur öftustu blöðunum sem eru langmest skemmd af öllu handritinu.

Letur eða stafagerð handritsins er  sem á flestöllum íslenskum handritum fyrr á öldum  að langmestum hluta af gotneskum toga. Þar er um að ræða svokallaða fljótaskrift, en einnig bregður fyrir settletri, meðal annars í öllum fyrirsögnum. Bókstafi sem ættaðir eru úr latínuletri má þó sjá víða, eins og við er að búast, einkum í settleturstextum.

Þar sem settletur er að finna í sálmatextanum, allt frá einu orði til nokkurra versa, virðist augljóst að stundum sé um að ræða áhersluauðkenni, en annars staðar sé þetta gert af handahófi, svo sem þegar fyrsta lína í versi er rituð þannig eða þar sem breytt er leturgerð í miðri setningu. Er langt í frá að regla verði fundin í þessu efni. Þess er að geta að meira er um settletur í fyrri en síðari hluta handritsins.

Frá hendi skáldsins verður ekki heldur fundin nein almenn regla um notkun stórs upphafsstafs, og stafsetning er að hans eigin hætti, jafnvel stundum ósamræmi í sömu orðum, svo sem títt er hjá skrifurum á fyrri tímum.

Í handritinu er hvert vers ritað í fullum línum, eins og venja var fyrr á tíð til að nýta pappírinn. Á eftir hverri hendingu eru oftast skásett greinimerki eða greinistrik sem líkjast mest nútímakommum, en eru þó oftast stærri. Víða vantar samt þessi merki og gætu þá hafa gleymst eða máðst út. Einnig er þau að finna á stöku stað svo sem til að tákna rétta áherslu þar sem ekki eru ljóðlínuskil. Í lok versa er oft ekki að sjá nein merki, ellegar fyrrnefnd skástrik eru sett á eftir þeim eða punktar eða jafnvel bæði táknin, allt án sýnilegrar reglu. Þá kemur fyrir að punktar séu settir til áherslu eða nánast þar sem nú væru höfð upphrópunarmerki.

Fernt er það í handritinu, sem verður ekki eða hefur ekki verið rakið til Hallgríms Péturssonar sjálfs: Neðst á blað 48v hefur Hálfdan Einarsson skólameistari á Hólum ritað eftirfarandi orð sem lýsa því á hvern hátt hann eignaðist handritið:

„Þetta eiginn handar rit s[ál.?] s[r.?] Hallgr[íms?] hef eg | undir skrifadur eignast frá Ióni Biarnarsyni í Ynnri | Hjardardal i Dyra fyrdi. Holum d(en) 28 aug(ust) 1773 | Hálfdan Einarsson“

Á blöðum 5r, 9r, 13r, 17r, 21r, 25r, 29r, 33r, 37r, 41r og 45r eru arkamerki er hefðu getað verið sett þegar bókin var búin undir band. Er hver örk, að undantekinni hinni fremstu, auðkennd með stórum bókstaf á latínuletri, það er frá B til M. Einnig hefur verið farið ofan í eða sett merki yfir stafi, einkum á aftasta blaði. Er það víða ranglega gert, sé miðað við ritunartímann, en í samræmi við venju síðari tíma. Loks er þess að geta að Finnur Jónsson telur að hönd Hallgríms sé ekki á þeim texta sem ritaður er neðan undir lokalínu sjálfra Passíusálmanna, neðst á 46v. Er höndin miklu vandvirknislegri og stafagerð úr latínuletri. Það eru orðin:

„Lofadur sie Gud og blessad sie hans heilaga nafn ad eylijfu | Amen Amen | 1661 in januario | Deo mihi amico sat felix.“

 Þessi ályktun Finns, það er að hér sé um að ræða aðra hönd en séra Hallgríms, virðist þó geta orkað tvímælis. Magnús Jónsson dregur niðurstöður hans stórlega í efa og skal hér tekið undir orð hans. Telur Magnús vafaorðin rituð strax eftir að lokið var við sálmana, en einnig má hugsa sér að þeim hafi ekki verið bætt við fyrr en tveimur árum síðar, eins og ártalið ber með sér, ef til vill eftir að Hallgrímur hafði ákveðið að senda Ragnheiði biskupsdóttur handritið. Finnur kallar stafina tilgerðarlega og bendir á að sumir þeirra séu látnir enda á feitum hala neðan við línu eða út úr toppnum. Slíka hala má reyndar sjá sums staðar í sálmatextanum, svo sem neðst á blöðum 32r og 36r. Þá má sjá mjög líka drætti og eru í sumum hinna sömu stafa af sömu gerð í sálmunum. Helst er að nefna stafi með sérstök einkenni, svo sem lítið s, er bera má saman við sama staf í yfirskrift hvers sálms, og stórt A, eða þá allt orðið Amen, þar sem það virðist ritað af vandvirkni, til dæmis í lok 17. og 47. sálms. Loks skal sérstaklega bent á að hér er ritað stórt B fremst í orði, eins og heita má undantekningarlaust í sálmatextanum, þótt annars hefjist flest hliðstæð orð á litlum staf í þessum texta.

Vert er að hafa í huga að frá því að Hallgrímur ritaði JS 337 4to og þar til sálmarnir voru prentaðir leið rúmlega hálfur áratugur. Er ekkert líklegra en hann hafi endurskoðað texta sinn á þeim tíma svo að allt getur verið með felldu um þann mun sem er á handritinu og hinum prentaða texta þegar frá eru taldar setjaravillur í frumútgáfunni.

Prentaðar grundvallarheimildir

Finnur Jónsson: Formáli að ritinu Passíusálmar Hallgríms Pjeturssonar. Kaupmannahöfn 1924.

Magnús Jónsson: Hallgrímur Pétursson, æfi hans og starf, I-II. Reykjavík 1947.

Arne Møller: Hallgrímur Péturssons Passionssalmer. Kjøbenhavn 1922.

Páll Eggert Ólason: Athugasemdir um Passíusálmahandrit. Skírnir, CXIII. ár. Reykjavík 1939.

Ferill Passíusálmahandrits síra Hallgríms Péturssonar. Skírnir, CI. ár. Reykjavík 1927.

 Nokkur orð um handritið. [Eftirmáli við ljósprentun Passíusálmanna.] Reykjavík 1946.

 

© Ögmundur Helgason. Birtist upphaflega í ritinu útgáfu Landsbókasafns Íslands – Háskólabókasafns (1996)